Páll Magnússon fyrrverandi útvarpsstjóri segist ekki afhuga stjórnmálaþátttöku. Í viðtali við DV segir hann tvo stjórnmálaflokka hafa komið að máli við sig um framboð, og segist hann í fyrsta sinn vera að íhuga málið.

Frjálslyndur en hafnar hægri og vinstri skala

Lýsir hann stjórnmálaskoðunum sínum sem frjálslyndum, en segist hann geta fundið því frjálslyndi stað í fleiri en einum stjórnmálaflokki. Hafnar hann jafnframt vinstri og hægri skalanum sem hann segir ekki duga jafnvel og áður til að staðsetja fólk á hinu pólítíska viðhorfi.

Segist hann til að mynda ekki vita hvort Píratar séu vinstri eða hægri flokkur, í raun segir hann þá líklega vera hvorugt.

Gagnrýnir forystumenn í atvinnulífinu

Gagnrýnir Páll í viðtalinu meðal annars að forystumenn í atvinnulífinu komi af fundum Samtaka atvinnulífsins og segi ekki svigrúm til að hækka laun um meira en 2 til 3%, en fari svo á stjórnarfundi og hækki eigin laun um 30 til 40%.

Einnig gagnrýnir hann nýtilkomnar hækkanir Kjararáðs á launum ráðuneytisstjóra, og segir hann þessa hegðun ástæðuna fyrir að traust í samfélaginu sé í núllpunkti.