„SMÁÍS eru stofnuð 1992 og til að byrja með stóðu að þessu Sena (gamla Skífan), Samfélagið, Myndform og Bergvík. Seinna koma sjónvarpsstöðvarnar inn í þetta, þessar þrjár stóru, Stöð 2, RÚV og Skjáreinn. Þá er þetta orðið aðeins stærra apparat,“ segir Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri Samtaka myndrétthafa á Íslandi (SMÁÍS), um uppruna samtakanna.

Snæbjörn er í viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Þar segir hann m.a. mikið vatn hefur runnið til sjávar frá fyrstu dögum þegar leiguréttur mynda var helsta áhyggjuefni kvikmyndarétthafa.

Þú hefur staðið í þessu í sex ár og mætti jafnvel segja að þú sért á vissan hátt andlit SMÁÍS. Er ekki lýjandi að standa eilíft í þessari rökræðu þegar þú hittir fólk úti í sjoppu, niðri í bæ eða hvar sem er?

„Jú, gott dæmi um það var fréttin í Viðskiptablaðinu um viðskipti SMÁÍS við eiganda merkingarkerfis kvikmynda. Á forsíðunni á Deildu er stór mynd af mér þar sem stendur að ég sé þjófur. Það er ekkert óalgengt að maður fái alls konar persónulegt níð um sjálfan sig í þessu starfi sem getur verið erfitt fyrir mig og fjölskylduna. Þetta var sérlega hart í kringum Istorrent málið. Þá var verið að birta á netinu hvar börnin mín gengu í skóla og annað slíkt. Ég er nánast hættur að nenna að fara niður í bæ um helgar. Það er ekki það að ég hafi áhyggjur af því að einhver ætli að berja mig eða eitthvað slíkt. Það er bara ekki gaman að hitta alla höfundarréttarsérfræðingana í glasi og eyða öllu laugardagskvöldinu í að tala við þá.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.