Upphafið að þeirri óheillaþróun sem varð í íslensku efnahagslífi, þar sem mikil samþjöppun varð á markaðnum og óraunverulegur hagnaður varð  allt að því regla, segir Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að hafi verið um það leyti sem  hann seldi hlut sinn í Kaupþingi til sparisjóðanna. "Ég  seldi 49% hlut í Kaupþingi til sparisjóðanna [árið 1986]. Ég hafði þá átt Kaupþing einn í sex vikur, hafði keypt það af meðstofnendum mínum, en hafði áður tryggt það, með óformlegu samkomulagi, að Sparisjóðirnir myndu kaupa 49%hlut og eiga Kaupþing með mér. Í því samkomulagi var meðal kveðið á um að ég hefði tvo stjórnarmenn en Sparisjóðirnir þrjá. Ég lagði áherslu á að tryggja það að fyrir mig yrðu óháðir menn, þ.e. sem voru í stjórninni einungis á faglegum forsendum. Það voru þeir Þorkell Helgason og Þorvaldur Gylfason prófessor sem jafnframt var stjórnarformaður. Í kjölfar þessara viðskipta fóru miklar sviptingar að eiga sér stað."

Pétur segir, í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið, að mikil hringrás peninga hafa einkennt viðskiptalífið eftir þetta, þar sem félög áttu hvert í öðru og vöxturinn varð ævintýrlega hraður. "Gjaldþrotafræðin segir að þeir sem taka áhættu og sífellt meiri áhættu, þeir fara á hausinn á endanum. Spurningin er bara hvenær það gerist og hverjir verða í hluthafahópnum. Eftir að ég hafði selt minn hlut í Kaupþingi var stofnað hlutafélag sem hét Meiður sem átti allt hlutafé Sparisjóðanna í Kaupþingi. Með tímanum fór svo Kaupþing að kaupa í Meiði sem aftur keypti í Kaupþingi. Þetta held ég að sé ein af rótum þess hvernig fór fyrir okkar hagkerfi. Það myndaðist hringrás peninga. Þetta er eins konar kerfisvilla. Með tímanum var Meiði breytt í Exista og hringekjan hélt áfram að magnast upp. Svipað varð svo uppi á teningnum í öðrum félögum, s.s. bönkunum og fleirum. Þetta jók á kerfisáhættuna og líklega blindaði þetta mönnum sýn að einhverju leyti. Ég varaði oft við krosseignarhaldi og hélt fund 1. mars 2005 sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar um gagnkvæm eignatengsl í fyrirtækjum og félögum. Þar fór ég í gegnum hættuna af gagnkvæmu eignarhaldi og krosseignarhaldi."

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .