*

laugardagur, 6. júní 2020
Innlent 24. nóvember 2018 22:33

Pétur Gunnarsson látinn

Mikilvirkur blaðamaður og fréttastjóri, þ.á.m. um tíma hjá Viðskiptablaðinu, er fallinn frá 58 ára að aldri.

Ritstjórn
Pétur Gunnarsson fæddist 18. mars 1960 en lést í gær, 23. nóvember 2018.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Pétur Gunnarsson, blaðamaður og fyrrum fréttastjóri Viðskiptablaðsins, er látinn, 58 ára að aldri. Hann lést á líknardeild Landspítalans í gærkvöldi, en hann greindist með krabbamein í júlí í fyrra.

Meðal þeirra sem hafa minnst hans með saknaðarkveðjum á Facebook eru Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, systir hans, vinir og samstarfsmenn, má þar nefna Grím Atlason og Björn Inga Hrafnsson.

Ferill:

Pétur var fæddur 18. mars 1960, sonur Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur og Gunnars Eyþórssonar, en Jón Múlí Árnason var fósturfaðir hans. Hann átti þrjú yngri systkini.

Eftir að hafa útskrifast úr Menntaskólanum í Reykjavík árið 1980 starfaði hann í fáein ár hjá Lögreglunni í Reykjavík, en um miðjan níunda áratuginn varð hann blaðamaður hjá Morgunblaðinu.

Þar starfaði hann fram að stofnun Fréttablaðsins þar sem hann varð fyrsti fréttastjóri blaðsins. Eftir að hafa starfað um tíma hjá Viðskiptablaðinu stofnaði hann og ritstýrði vefmiðlinum Eyjunni. Pétur starfaði einnig fyrir bæði Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna og sem ritstjóri hjá SÁÁ, auk ýmissa ráðgjafastarfa.

Árið 1980 giftist Pétur Önnu Margréti Ólafsdóttur leikskólastjóra og áttu þau saman börnin Ragnheiði Ástu, fædda 1980, Önnu Lísu fædda 1983 og Pétur Axel fæddan 1995. Pétur og Anna eiga þar að auki fimm barnabörn.