Er Ísland ekki landið sem lausafjárkrísan gerði út af við? Staðurinn þar sem allir híra í myrkrinu, borða sporð af þorski og hugsa um hvort að pakki af kertum dugi þeim yfir veturinn?

Þannig spyr Matthew Lynn í pistli í breska tímaritinu Spectator.

Þar fjallar Lynn um Ísland og segir að þrátt fyrir öll áföllin hafi landið ekki farið aftur til fornsteinaldar, nú tveimur árum eftir að lausafjárkrísan skall á. Íslensku bankarnir hafi verið teknir yfir af ríkinu en á meðan ríkið varði innlenda innlánseigendur þá reyndi það ekki að bjarga öllum innstæðum.

Það sé allt öðruvísi aðferð en ríkisstjórnir Bretlands, Bandaríkjanna og Írlands hafi notað við við björgunaraðgerðir banka. Hann segir að þar sé skattfé dælt inn í fjármálastofnanirnar til þess að halda þeim á lífi.

Lynn segir að að íslenska leiðin hafi ekki verið svo slæm. Stýrivextir hafi lækkað frá sínu hæsta gildi í 18% og séu nú viðráðanlegir. Búist sé við hagvexti á næsta ári og krónan hafi styrkst gagnvart evru um 19% á árinu.

Vekur upp spurningar

Reynsla Íslands sýnir að ef til vill hefðu önnur iðnríki ekki þurft að bjarga bankastofnunum með svo miklum kostnaði. Kannski hefði átt að láta þá fara í gjaldþrot, spyr Lynn í grein sinni.

Hann segir að Ísland hafi á margan hátt birst smágerð mynd af fjármálabólunni. Bankarnir lánuðu svo mikið fjármagn að meira að segja bankastjór Royal Bank of Scotland yrði undrandi. Þegar allt hrundi hafði Ísland engan möguleika á að koma bönkunum þremur til bjargar. Skuldir bankanna voru 86 milljarðar dala við fall þeirra, samanborið við 13 milljarða dala landsframleiðslu árið 2009.

Í greininni rekur höfundurinn afleiðingar bankahrunsins, fall krónunnar, samdrátt landsframleiðslu, skuldavanda heimila vegna gengislána og tilkomu gjaldeyrishafta og komu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta hafi verið gríðarlega harður skellur.

„En - og það er þetta sem er áhugavert - þetta hefur gengið hratt yfir,“ segir í greininni. Nú líti svo út að efnahagsástand á Íslandi fari batnandi. Á sama tíma eru önnur ríki í miklum vandræðum með sín bankakerfi. Hér sé gert ráð fyrir hagvexti á næsta ári og gert sé ráð fyrir að gjaldeyrishöftum verði lyft þá.

Fólk borðar enn, ekur bíla og hita heimili sínu. Kom því í ljós að hið efnahagslega Harmagedón sem hér varð hafi ekki verið svo slæmt eftir allt saman.

Ástandið betra en í Grikklandi og á Írlandi

Á margan hátt er Ísland betur statt en Írland og Grikkland og jafnvel betur statt en Bretland, segir Lynn. Engin viti hvenær bresk stjórnvöld leysi vanda Royal bank of Scotland eða Lloyds-HBOS eða hvað það muni á endanum kosta.

„Það felst mikilvægt lexía í þessari lífsreynslu. Nánast hvaða einasta ríkisstjórn í heiminum hefur sætt sig við þá hugmynd að henni sé skylt að bjarga bönkum ef þeir lenda í vandræðum. En Ísland leggur til að það sé ekki endilega satt. Í rauninni gætu stjórnvöld einungis varið innstæður innlendra fjármagnseigenda. Eftir að því er lokið geta stjórnvöld sagt að þeim þyki þetta afar leitt, það hafi því miður ekki verið til nægt fjármagn til þess að greiða allar skuldir sem bankastarfsmenn höfðu safnað,“ segir Lynn (í lauslegri þýðingu Viðskiptablaðsins).

Slíkt getur verið betra fjárhagslega segir Lynn. Vondar skuldir eru afskrifaðar strax í stað þess að vera sem milusteinn um háls landsins. Það sem er mikilvægara er að afskrift vondra skulda er hið rétta siðferðislega rétta í stöðunni. Þannig er áhættusöm hegðun ekki verðlaunuð. „Bankamenn þyrftu að hugsa mun meira um áhættu gjörða sinna og mögulegar afleiðingar. Að sama skapi þyrftu innlánseigendur að huga betur að hvar þeir ávaxta fé sitt, í stað þess að gera ráð fyrir að stjórnvöld greiði reikninginn ef fé tapast.“

„Ef Bretland fer að fordæmi Íslands þá er mögulegt að efnahagur landsins vaxi á ný nokkuð fljótlega. Við gætum jafnvel stefnt fyrrum forsætisráðherra fyrir dóm fyrir vanrækslu, líkt og Íslendingar hafa gert. Sú hugmynd gæti raunar alls ekki verið svo slæm,“ segir Lynn í niðurlagi greinarinnar.

Greinina í Spectator má í heild sinni hér .