Marel í Garðabæ keypti Póls á Ísafirði árið 2004, en félögin höfðu unnið á svipuðu sviði að þróun voga og vinnslulína fyrir matvælaiðnað. Var félagið síðan rekið sem sjálfstæð eining, en þann 1. september síðastliðinn var Póls endanlega sameinað móðurfélaginu og er nú rekið sem starfsstöð Marels á Ísafirði. Þetta kemur fram í frétt í Viðskiptablaðinu í dag.

Er þetta liður í stefnu fyrirtækisins um að fækka sjálfstæðum rekstrareiningum innan samsteypunnar og færa þær ýmist undir hatt móðurfélagsins í Garðabæ eða dótturfélagsins Carnitech í Danmörku.

Rekstur Póls hefur gengið vel frá því Marel eignaðist félagið. Í nýjasta fréttabréfi Marels kemur fram að áformað sé að styrkja starfsemina á Ísafirði enn frekar. Það verði m.a. gert með því að bæta tækjakost í framleiðslunni og auka samvinnu við önnur fyrirtæki vestra.

Helstu framleiðsluvörur starfsstöðvar Marels á Ísafirði eru samvalsvélar fyrir pökkun í minni pakkningar og flæðisamvalsvélar sem skammta í 1 til 30 kg pakkningar. Þessar vélar hafa vakið mikla athygli og eru seldar víða um heim. Fyrsta íslenska fyrirtækið til að kaupa flæðisamvalsvélar er Ísfélag Vestmannaeyja og er önnur tveggja véla fyrirtækisins til sýnis á sjávarútvegssýningunni í Kópavogi.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.