Samkvæmt samningi milli Mílu efh. og raflagnafyrirtækisins Rafmanna efh. sem undirritaður var  í dag munu Rafmenn ehf. á Akureyri sjá um þjónustu við fjarskiptakerfi Mílu á Akureyri og nágrannasveitum. Samningurinn felur meðal annars í sér að starfsfólki Mílu á Akureyri verður boðið starf hjá Rafmönnum, enda ljóst að fyrirtækið mun þurfa á þeim að halda í nýjum verkefnum sem fylgja samstarfinu, segir í fréttatilkynningu.

Samkvæmt samningnum munu starfsmenn Rafmanna meðal annars sjá um allar nýlagnir, tengingar og viðgerðir á svæðinu.. Míla mun áfram sinna uppbyggingu á fjarskiptaneti sínu, viðhaldi þess, bilanagreiningu og fleiru. Míla mun einnig sjá um þjálfun þeirra starfmanna Rafmanna sem starfa munu við fjarskiptanetið. Með samningnum verður til umfangsmikil þekking á fjarskiptamálum á Akureyri og þjónusta við kerfið verður bæði örugg og skilvirk.

Hjá Rafmönnum eru 35 starfsmenn sem búa yfir víðtækri þekkingu á rafmagnstækni auk sérþekkingar á sjónvarpskerfum og síma- og tölvulögnum. Starfsemi fyrirtækisins fellur vel að starfsemi Mílu sem á og rekur fjarskiptanetið sem áður heyrði undir Símann. Um farskiptanetið fer þorri símtala landsmanna, gagnaflutningar og útsendingar útvarps- og sjónvarpsstöðva, svo eitthvað sé nefnt.

„Samstarf Rafmanna og Mílu stuðlar að enn betri þjónustu á sviði fjarskipta hér á Akureyri og í nágrannabyggðunum. Samstarfið hefur mikla þýðingu fyrir Rafmenn og það kemur til með að styrkja fyrirtækið,“ segir Árni Páll Jóhannsson, framkvæmdastjóri Rafmanna.

Markmið Mílu er að tryggja hröð, hnökralaus og fjölbreytt samskipti fólks, bæði einstaklinga og fyrirtækja, innanlands og við útlönd. „Ég er sannfærður um að þjónusta við viðskiptavini Mílu á eftir að styrkjast við þessa breytingu.  Með samningnum erum við að fjölga sérfræðingum í fjarskiptum á svæðinu verulega frá því sem nú er. Míla gerði fyrr í vetur sambærilegan samstarfssamning við Snerpu á Ísafirði sem hefur gefið góða raun. Ég er ekki vafa um að það sama eigi við um samning okkar við Rafmenn á Akureyri,” segir Páll Á. Jónsson, framkvæmdastjóri Mílu.