Veruleg aukning var í sölu á varanlegum neysluvörum í nóvember, eins og stórum raftækjum og húsgögnum. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Þar kemur fram að sala á snjallsímum hafi aukist um 168,8% á föstu verðlagi í nóvember miðað við sama mánuð á síðasta ári, en það mun vera vegna þess að hafin var sala á nýrri útgáfu snjallsíma í byrjun mánaðarins.

Sala húsgagna jókst um 26,6% og þar af jókst sala á rúmum um 45,7%. Velta í sölu á stórum raftækjum eins og þvottavélum og ísskápum, svokölluðum hvítvörum, jókst um 30,4% og sala á minni raftækjum, sjónvörum og hljómflutningstækjum um 22,1%.

Velta í dagvöruverslun í nóvember jókst lítillega og samdráttur varð í sölu áfengis miðað við sama mánuð í fyrra. Verður hins vegar að taka tillit til þess að í nóvember síðastliðnum voru fjórir föstudagar, en í nóvember í fyrra voru þeir fimm, en föstudagar eru söluhæstu dagarnir í þessum vöruflokkum.

Lesa má umfjöllun Rannsóknarseturs verslunarinnar hér .