Ragnar Örn Kormáksson hefur verið ráðinn Vaxtastjóri hjá Bókun ehf. en í því hlutverki mun hann sjá um að sækja nýja notendur og gera þeim auðveldara að tileinka sér hugbúnaðinn.

Bókun ehf. er fyrirtæki sem rekur hugbúnað fyrir ferðaþjónustufyrirtæki, sem tengir saman ferðaþjónustuaðila svo þeir geti selt vörur hvers annars.

Unnið með nýsköpunarfyrirtækjum

Ragnar er með mikla reynslu af því að starfa með nýsköpunarfyrirtækjum og hefur hann verið fjármálastjóri Icelandic Startups síðustu fjögur árin. Í því hlutverki veitti hann fyrirtækjum ráðgjöf um vöruþróun, markaðssetningu og fjármögnun.

Ragnar hefur einnig kennt nýsköpun og stofnun fyrirtækja við Háskólann í Reykjavík og hefur hann komið að rekstri á flestum viðskiptahröðlum Íslands.

Fyrirtækið tvöfaldast á hverju ári

Ragnar, sem er fæddur árið 1985, er með M.Sc. í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst.

„Fyrirtækið hefur tvöfaldast í stærð á hverju ári undanfarin ár. Bókunum og viðskiptavinum hefur fjölgað umtalsvert það sem af er ári og útlit fyrir áframhaldandi vöxt, bæði hérlendis og erlendis,“ segir í fréttatilkynningu fyrirtækisins.