*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 11. febrúar 2019 16:12

Ragnar Þór sjálfkjörinn formaður VR

16 frambjóðendur berjast um 7 sæti í stjórn og 3 í varastjórn stærsta verkalýðsfélags landsins.

Ritstjórn
Ragnar Þór Ingólfsson, sitjandi formaður VR, verður það áfram óskoraður.
Haraldur Guðjónsson

Enginn fór fram gegn sitjandi formanni, Ragnari Þór Ingólfssyni, en framboðsfrestur vegna formanns- og stjórnarkjörs í félaginu rann út á hádegi í dag.

Verður Ragnar Þór því sjálfkjörinn til næstu tveggja ára, en hann var kjörinn formaður með tæplega 63% atkvæða gegn Ólafíu B. Rafnsdóttur þá sitjandi formanni í mars árið 2017. Þó kusu einungis 5.706 af 33.383 sem voru á kjörskrá.

16 manns hafa síðan boðið sig fram til stjórnar félagsins, en kosið er um 7 af 14 stjórnarsætum á hverju ári, auk þriggja varamanna, í einstaklingsbundinni kosningu. Verður haldinn fundur með frambjóðendunum kl. 12 á miðvikudaginn, og nöfn frambjóðandanna birtur að honum loknum.

Til að bjóða sig fram í stjórn þarf 15 skrifleg meðmæli félagsmanna, en til formanns þarf 50 skrifleg meðmæli félagsmanna. 

Loks er kosið um 41 sæti í trúnaðarráði félagsins, en til þess að listi sem fari fram gegn lista uppstillingarnefndar sé löglega borinn fram þarf skrifleg meðmæli 352 félagsmanna auk skriflegs samþykkis frambjóðenda á listanum.