„Allar almennar aðgerðir duga ekki til að leysa úr vanda þessa hóps. Þær yrðu svo stórar og umfangsmiklar að þær myndu stefna fjármálalegum stöðugleika og ríkisfjármálum í voða. Það verður að koma með sérsniðnar lausnir. En það er ekki hægt að útiloka að einhverjar þeirra fari í þrot,“ segir Þorvarður Tjörvi Ólafsson. Hann og Karen Áslaug Vignisdóttir komust að þeirri niðurstöðu í rannsókn sinni á fjárhagsstöðu íslenskra heimila að 4.000 barnafjölskyldur með millitekjur og fólk með lágar tekjur er í alvarlegum greiðsluvanda. Þau eiga á hættu að verða gjaldþrota nema komi til sérsniðnar lausnir til að leysa úr vanda þeirra. Þessi heimili vantar a.m.k. 100 þúsund krónur um hver mánaðamót.

Þetta er liður í rannsókn sem þau hafa unnið upp á síðkastið.

Í rannsókninni skoðuðu þau Þorvarður Tjörvi og Karen m.a. árangur af þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til að leysa úr greiðslu- og skuldavanda heimila landsins. Niðurstaða þeirra er sú að í lok árs 2010 hafi 21% heimila landsins glímt við greiðsluvanda. Sérstök vaxtaniðurgreiðsla í fyrra og á þessu ári var ekki tekjutengd og gagnaðist að mestu fólki með háar tekjur en með miklar skuldir á bakinu og átti ekki við greiðsluvanda að etja. Þá skilaði 110%-leiðin litlu. Til saman kom það um 1,5% heimila til hjálpar. Greiðsluaðlögun og endurútreikningur á gengislánum gagnaðist mun fleirum.

Áttu ekki að fá lánað

„Við skoðuðum að hve miklu leyti fólk sem þegar var komið í greiðsluvanda í hverjum mánuði frá 2007 og fram að bankahruni fengu enn lán hjá bönkunum. Það komumst við að því að 16% lána sem bankarnir veittu á þessum tíma voru veitt til heimila sem þegar voru komin í greiðsluvanda. Vísbendingar eru einmitt um að gengistryggð lán hafi í auknum mæli verið veitt fólki með millitekjur og lágar tekjur. Þessi heimili áttu ekki að fá lánað,“ segir Þorvarður Tjörvi.

„Það er ljóst að vísbendingar um að fjármálastofnanir vanræktu hlutverk sitt,“ segir hann.

Ritgerðina má lesa í heild sinni hér