Rarik ohf. hagnaðist um nærri 2,5 milljarða króna árið 2022, sem er tæplega 16% aukning frá fyrra ári. Áhrif hlutdeildarfélagsins Landsnets, að meðtöldum áhrifum sölu þess, voru jákvæð um 2.339 milljónir króna. Stjórn Rarik leggur til 310 milljóna arðgreiðslu til ríkissjóðs.

Rekstrartekjur Rarik námu 18 milljörðum og jukust um 8% frá fyrra ári. Rekstrargjöld hækkuðu um tæp 11% á milli ára og námu 15 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir (EBITDA) nam 2,7 milljörðum og dróst saman um 7% frá árinu 2021.

„Tekjur samstæðunnar hækkuðu á milli ára vegna aukinna tekna af dreifingu og raforkusölu. Tekjur af tengigjöldum voru lægri en árið áður,“ segir í afkomutilkynningu Rarik.

Seldu 22,5% hlut í Landsneti

Í lok síðasta árs var 22,5% eignarhlutur Rarik í Landsneti seldur til Ríkissjóðs Íslands. Kaupverð nam 15,2 milljörðum króna og var greitt með tveimur skuldabréfum til 5 ára, annars vegar í íslenskum krónum og hins vegar Bandaríkjadölum. Áhrif sölunnar færð í rekstrarreikning Rarik voru jákvæð um 1.358 milljónir króna.

Eignir Rarik í árslok 2022 námu 88,9 milljörðum króna sem er 5,4 milljarða hækkun á milli ára. Eigið fé var um 55,8 milljarðar. Eiginfjárhlutfallið lækkaði úr 64,3% í 62,7% á milli ára.

Fjárfestingar félagsins í fyrra, að frádregnu söluandvirði seldra rekstrarfjármuna, námu 6,7 milljörðum króna sem er nærri 1,4 milljarða aukning á milli ára. Samkvæmt fjárfestingaráætlun fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir meiri fjárfestingum en á árinu 2022 eða um 7,8 milljörðum króna.

Meginstarfsemi Rarik er rekstur dreifiveitu sem nær til meginhluta landsins utan höfuðborgarsvæðisins, Vestfjarða og Reykjaness. Auk þess rekur Rarik fimm hitaveitur, jarðvarmaveitur í Búðardal, Blönduósi, Skagaströnd, Siglufirði og á Höfn í Hornafirði og Nesjum og fjarvarmaveitu á Seyðisfirði. Framleiðsla og sala rafmagns er í höndum dótturfélagsins Orkusölunnar ehf.