2,7 milljarðar króna skiptu um hendur í 172 viðskiptum með hlutabréf í Kauphöllinni í dag. Talsverðar lækkanir voru á verði flestra félaga.

Marel lækkaði mest, eða um 2,18% og stendur gengi félagsins nú í 246,5 krónum á hlut. Mest viðskipti voru hins vegar með bréf Icelandair, sem lækkuðu um 1,2% í 766 milljón króna viðskiptum. Bréf Icelandair standa nú í 36,65 krónum á hlut. HB Grandi, N1, Síminn, VÍS og TM lækkuðu einnig um meira en 1 prósent.

13,8 milljarða króna viðskipti voru með skuldabréf í Kauphöllinni í dag. Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði lækkaði í dag, þar sem verð verðtryggðra bréfa lækkuðu á meðan verð óverðtryggðra bréfa hækkuðu.

Mest lækkaði verðtryggði flokkurinn HFF 34 0415 í verði, eða um 1,09%. Óverðtryggði flokkurinn RIKB 31 0124 hækkaði hins vegar í verði um 1,04%. Ávöxtunarkrafa síðarnefnda flokksins lækkaði úr 5,80% í 5,69% í dag.