Refco tilkynnti í gær að það hefði sótt um gjaldþrotaskipti og selt þann hluta fyrirtækisins sem sæi um framvirk viðskipti til hóps fjárfesta fyrir 768 milljónir dollara, eða sem nemur 47 milljörðum íslenskra króna. Fyrir fjárfestahópnum fer Chris Flowers, fyrrum yfirmaður hjá Goldman Sachs sem nú rekur fjárfestingarfyrirtækið JC Flowers. Umsókn fyrirtækisins um gjaldþrotaskipti er hluti af samkomulagi stjórnar þess við hluthafa.

Í Financial Times kemur fram að vonir ráðgjafa Refcos standi til þess að samkomulagið við Flowers komi í veg fyrir að fleiri viðskiptavinir fyrirtækisins hverfi á braut og endurveki traust á starfsemi þess. Hneyksli síðustu viku var nærri því að ríða fyrirtækinu að fullu, þegar í ljós kom að þáverandi forstjóri þess, Phillip Bennet, hefði tekið 430 milljónir dollara að láni úr sjóðum þess án vitundar stjórnar.

Greenhill, óháður fjárfestingabanki sem sérhæfir sig í að veita fyrirtækjum ráðgjöf í kringum gjaldþrot, verður eini ráðgjafi Refcos. Goldman Sachs, sem hafði verið fjármálaráðgjafi fyrirtækisins, dregur sig í hlé vegna þess að tengsl þess við Flowers gætu ýtt undir grunsemdir um hagsmunaárekstur. Þó hefur Flowers notið þjónustu keppinautar Goldman Sachs, Morgan Stanley, við gerð flestra stórra samninga sinna að undanförnu.