*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 8. október 2020 16:04

Reitir lækka afkomuspá

Reitir hefur lækkað afkomuspá sína um 12,5% fyrir árið 2020. Tekjuspá félagsins hefur verið lækkuð um sjö prósent.

Ritstjórn
Guðjón Auðunsson er forstjóri Reita.
Haraldur Guðjónsson

Fasteignafélagið Reitir hefur endurmetið afkomuspá sína fyrir árið 2020 og lækkar hún um allt að 12,5%. Áætlað er að rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingar verði 6.650-6.800 milljónir króna á þessu ári en áður hafði verið gert ráð fyrir 7.600-7.750 milljóna króna rekstrarhagnað. Frá þessu greinir félagið í tilkynningu.

Tekjuspá félagsins er sjö prósentustigum lægri en hún var áður. Reitir áætla að tekjur ársins verði 10.700-10.850 milljónir króna en áður hafði verið gert ráð fyrir 11.500-11.650 milljónum í árstekjur.

Fyrstu drög að rekstraráætlun fyrir árið 2021 gera ráð fyrir um 5% hækkun tekna frá fyrra ári og rekstrahagnaði fyrir matsbreytingu á bilinu 7.050-7.250 milljónir króna. Áætlað er að rekstrarafkoma þriðja ársfjórðungs verði á bilinu 1.560-1.590 milljónir króna og líklegt er að afkoma á fjórða ársfjórðungi verði sambærileg.

Stjórnendur áætla að heimsfaraldurinn hafi kostað félagið 291 milljón króna á þriðja ársfjórðungi samanborið við 315 milljónir á öðrum fjórðungi.  „Lang stærstur hluti áætlaðra tapaðra tekna vegna Covid-19 hjá félaginu er vegna hótela og gististaða,“ kemur fram í tilkynningu félagsins. Nýtingarhlutfall fjórðungsins var rétt um 95% sem er betri nýting en á bæði fyrsta og öðrum ársfjórðungi.

Stikkorð: Reitir Afkomaspá