Rekstrartekjur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar náðmu tæplega 6,8 milljörðum króna á síðasta ári og jukust um 9% frá fyrra ári, rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsliða námu tæplega 4,5 milljörðum króna og jukust um 6,7% frá fyrra ári.

Starfsemi FLE hf. skilaði 22 milljónum króna rekstrarhagnaði eftir skatta árið 2006.  FLE hf. greiðir eigenda sínum, íslenska ríkinu, 250 milljónir króna í arð vegna rekstrarársins 2006.

Farþegum um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fjölgaði um rúm 11% á árinu 2006 miðað við árið 2005, eða úr rétt tæpum 1.817 þúsund farþegum í rúma 2.019 þúsund farþega. Þetta er í samræmi við farþegaspá sem breska fyrirtækið BAA Plc gerði árið 2004 fyrir FLE. Spáð er um 6% fjölgun árið 2007 og að árið 2015 verði farþegafjöldinn kominn vel yfir þrjár milljónir, sem jafngildir tvöföldun á einum áratug.

Til að bregðast við þessum aukna farþegafjölda er unnið að stækkun flugstöðvarinnar og hafa tvö síðastliðin ár einkennst af miklum framkvæmdum. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum að mestu fyrir 20 ára vígsluafmæli flugstöðvarinnar þann 14. apríl 2007.

Á árinu 2006 var fjárfest fyrir 4 milljarða króna en heildarfjárfestingin er upp á nær sjö milljarða króna á árunum 2004-2007. Þegar yfirstandandi framkvæmdum lýkur verður brottfararsvæðið meira en tvöfalt stærra en áður var og rekstur verslunar, þjónustu og afþreyingar af ýmsu tagi verður umfangsmeiri en nokkru sinni fyrr.

Rekstur Íslensks markaðar var formlega lagður af 1. apríl 2006, en vörur sem þar hafa verið seldar frá upphafi fyrirtækisins fyrir 36 árum, er nú að finna í verslunum Bláa Lónsins, Inspired by Iceland, Eymundssonar og Rammagerðarinnar Icelandic Gifst Store í flugstöðinni.