Hæstiréttur hefur hafnað kröfu dánarbús Jóhannesar S. Kjarvals listmálara að eignaréttur þess yfir munum og myndum sem fluttar voru úr vinnustofu málarans síðla árs 1968 yrði viðurkenndur og þeir yrðu afhentir búinu.

Taldi dómurinn sannað að Kjarval hefði gefið Reykjavíkurborg þá muni og myndir sem málið snerist um, en verðmæti þeirra er talið getað hlaupa á milljónum tuga.

Dánarbúið byggði kröfu sína á að ósannað væri að Kjarval hefði með munnlegri yfirlýsingu í nóvember 1968 gefið borginni umrædda muni, heldur hefði hann einungis afhent borginni þá til geymslu. Vitni bar fyrir dómi að hann hefði verið viðstaddur þegar listamaðurinn gaf Reykjavíkurborg munina og staðfestu dagbókarfærslur hans þá fullyrðingu. Fleiri sönnur þóttu færðar á að um gjöf hefði verið að ræða, svo sem vitnisburður bílstjóra er aðstoðaði við flutning munanna.

Ákvörðun mótuð á löngum tíma

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir m.a.  að gögn málsins bendi eindregið til þess að ákvörðun Jóhannesar S. Kjarvals  um að afhenda Reykjavíkurborg þá muni sem um ræðir, hefði átt aðdraganda og mótast á nokkrum tíma, einkum eftir að sá síðarnefndi ákvað að reisa listasafn og sýningahús sem skyldi bera nafn listamannsins. Málskostnaður aðila var felldur niður.