Halldór Halldórsson, fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík frá 2013, mun áfram gefa kost á sér til að leiða lista flokksins í borginni. Halldór segir að hann og aðrir borgarfulltrú­ar Sjálfstæðisflokksins hafi lagt hart að sér á yfirstandandi kjörtímabili við að veita meirihlutanum aðhald með fjölda tillagna og bókana. Hann er gríðarlega ósáttur með störf meirihlutans í borginni, sérstaklega þegar kemur að húsnæðismálum, og segir húsnæðisvandann vera heimatilbúinn. Hann vonast til að Sjálfstæðisflokkurinn komist í meirihluta svo hægt sé að ráðast í lausnir á ýmsum vandamálum borgarinnar.

Nú fer senn að líða að kosningabaráttu fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar sem fram fara eftir ár. Hver eru ykkar helstu málefni?

„Það eru ótalmargir hlutir, en það sem fer illa með fólk og hagkerfið er húsnæðisskorturinn. Miðað við greiningar vantar núna um 5.000 íbúðir í Reykjavík og tillögur okkar um að úthluta fleiri lóðum hafa verið felldar. Á meðan rýkur húsnæðisverð upp vegna heimatilbúins lóðaskorts. Þetta er eitt af stóru málefnunum sem Sjálfstæðisflokkurinn færi strax í ef hann væri í meirihluta. Að auki þarf að taka rekstur borgarinnar í gegn og byrja að greiða niður skuldir, það er ótrúlegt að ekki sé verið að greiða niður skuldir í góðæri. Í þriðja lagi þarf auðvitað að fara að beita sér af einhverri alvöru í umferðarmálum og við myndum taka upp samninginn sem gerir það að verkum að ríkið þarf ekki að koma að neinum alvöru samgönguframkvæmdum í borginni næstu tíu ár.“

Þið í Sjálfstæðisflokknum hafið ekkert farið leynt með það að ykkur hefur þótt margt mega betur fara hjá meirihlutanum undanfarin ár?

„Við höfum ekki skilið af hverju stöðugildum fjölgar hjá borginni á hverju einasta ári á þessu tímabili og við teljum að það séu lausatök í rekstri. Við skiljum heldur ekki af hverju t.d. tillaga okkar um að setja Geirsgötuna í stokk var felld, eða af hverju það voru framkvæmdar þrengingar á Hofsvallagötu og Grens­ ásvegi. Við skiljum heldur ekki af hverju meirihlutinn hefur fellt tillögur okkar um að gera Geldingarnesið tilbúið fyrir íbúðabyggð til framtíðar og stækka íbúðahverfið í Úlfarsárdal allverulega, samt vantar 5.000 íbúðir. Og við skiljum ekki þessa tregðu til að nútímavæðast í skóla- og velferðarmálum.“

Undanfarið hefur þó verið mikið í fréttum að það eigi að byggja hér og þar. Er þetta ekki að þokast í rétta átt?

„Ég sagði einhvers staðar að við værum komin með heila New York ef við teldum glærurnar hans Dags B. Eggertssonar borgarstjóra aftur og aftur. Það er ekkert skjól í þessum glærum, það flytur enginn inn í þær, en það er til rosalega mikið af þeim. Ef þær glærur sem við höfum séð frá árinu 2010 væru marktækar, þá væri enginn húsnæðisvandi í Reykjavík í dag, en hann er til staðar. Það er alltaf verið að sýna sömu glærurnar og segja frá einhverju sem er svo langt inni í framtíðinni, t.d. stækkað Bryggjuhverfi og 15.000 íbúða byggð í Ártúnshöfða sem er örugglega 15 ár í framtíðinni.“

Geturðu sagt mér nánar frá ykkar lausnum á húsnæðisvandanum sem meirihlutinn felldi?

„Við höfum af og til á kjörtímabilinu lagt til að stækka Úlfarsárdalinn, en upphaflega hugmyndin á bak við Úlfarsárdal og Grafarholtið var að reisa þar 28.000 íbúa hverfi. Svo þegar farið er að hanna hverfið er farið niður í u.þ.b. 18.000 íbúa og síð­ an þá hefur þetta sífellt verið minnkað og minnkað. Nú er verið að auglýsa breytingar á deiliskipulagi fyrir Úlfarsárdal sem gerir ráð fyrir 440 nýjum íbúðum og þegar það hefur verið byggt og fólk flutt inn verða samtals 9.000 íbúar í Úlfarsárdal og Grafarholti. Það er talsvert langt frá 28.000 og við höfum sagt að þessi viðbót sé ekki nándar nærri nóg.“

Á dögunum var Reykjavíkurþing Varðar haldið og þar fór fram ákveðin stefnumótunarvinna varðandi borgarmálin. Hvað tekur þú með þér frá þessu þingi?

„Ég tek með mér ótrúlega samstöðu og samhug sem ríkti þarna. Ég myndi segja að það væri mjög skýrt orðalag um það hvernig Sjálfstæðismenn vilja sjá þessi mál sem ég nefndi áður: fjármálin, húsnæðismálin og umferðarmálin, og það fellur vel að þeirri stefnu sem við höfum unnið eftir á kjörtímabilinu. Sömuleið­is varðandi flugvöllinn, hann er ekki að fara neitt, það er enginn annar kostur í boði. Ég hef sagt að með Sjálfstæðisflokkinn í meirihluta myndum við taka upp aðalskipulagið sem gildir til ársins 2030, m.a. vegna þess að við myndum festa flugvöllinn í sessi út skipulagstímabilið. Það er fáránlegt að tala um flutning á flugvelli þegar það er enginn annar valkostur til staðar. Ég hef sagt að við eigum að rannsaka Hvassahraunið og skoða þann möguleika, en jafnvel þótt ákveðið væri á morgun að fara þangað ætti eftir að fara í alls konar úttektir og fleira og það myndi ábyggilega taka allavega tíu ár að koma flugvellinum þangað. Svo er þetta nú reyndar á eldvirku svæði, þannig að út frá almannavörnum er það kannski ekki ýkja skynsamlegt, en ég væri til í að skoða möguleikann.

Annað sem ég tek með mér frá Reykjavíkurþinginu er að það var alveg gríð­arleg umræða um skólamálin: grunnskóla og leikskóla í borginni, og óánægja fólks með hvernig staðið er að málum þar og hvernig við viljum gera betur. Við viljum horfa frekar til einkaskóla, þannig að fólk hafi meira val, eins og t.d. í Garðabæ þar sem foreldrar geta valið á milli skóla og fé fylgir barni. Við viljum nálgast þjónustu borgarinnar meira á þennan hátt, hvort sem það eru eldri borgarar, skólabörn eða hver sem er, að fé fylgi einstaklingnum sem þá getur valið sér þjónustuna. Í því felst miklu meira valfrelsi en í dag.“

Nánar er fjallað við Halldór í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .