Rick Perry, fyrrum ríkisstjóri Texas, hefur dregið forsetaframboð sitt til baka. Þetta tilkynnti hann á viðburði í St. Louis, Missouri, í gær og er hann fyrstur af 17 frambjóðendum Repúblíkana til að draga sig úr kapphlaupinu.

Ljóst var að Perry ætti á brattan að sækja eftir að honum tókst ekki að komast á aðalsviðið í kappræðum á Fox News snemma í ágúst. Sömuleiðis komst hann ekki á aðalsviðið í næstu kappræðum og sá hann því ekki fram á að geta komið stefnumálum sínum á framfæri.

Perry var einn af fremstu frambjóðendum Repúblíkana í forsetaframboði árið 2012 en dró framboð sitt til baka eftir óheppileg ummæli í kappræðum. Margir stuðningsaðilar hans úr fyrra framboði höfðu fundið sér aðra aðila til að styðja fyrir komandi forval Repúblíkanaflokksins.

Könnun frá CNN síðastliðinn fimmtudag sýndi að Perry hafði minna en 1% fylgi hjá kjósendum Repúblíkanaflokksins og kemur ákvörðun hans því fáum á óvart.