Raunhæft er að bandaríska ríkið selji hlut sinn í General Motors á næsta árinu.  Þetta kemur fram á vef WSJ en blaðið hefur þetta eftir heimildarmanni innan fjármálaráðuneytis Bandaríkjanna.

Tímasetning hugsanlegrar sölu byggist að sögn blaðsins á rekstrarárangri bílaframleiðandans á þessu ári og almennt á ástandinu á fjármálamörkuðum.

Fjármálaráðuneytið heldur á hlut ríkisins í GM sem það eignaðist við fjárhagslega endurskipulagningu félagins árið 2009.

GM varð skráð hlutafélag að nýju í nóvember sl. þegar fram fór hlutafjárútboð sem skilaði félaginu 23,1 milljarði dala í nýju hlutfé. Þá minnkaði hlutur ríkisins úr 61% í 33,3%.

Áður hafa embættismenn í ráðuneytinu sagt að reynt yrði að selja hlutinn fyrir forsetakosningarnar sem haldnar verða í nóvember 2012.