Að mati Ásgeirs Jónssonar, forstöðumanns greiningardeildar Kaupþings, hafa undanfarið orðið gríðarmiklar breytingar á hlutverki seðlabanka um allan heim.

Til skamms tíma hafa það verið viðtekin viðmið að missi markaðurinn traust á banka þannig að hann geti ekki fjármagnað sig, hlaupi seðlabankinn undir bagga með því skilyrði að bankinn hafi góða eignastöðu. Hana geti hins vegar verið erfitt að meta á krísutímum og því hafi seðlabankar í gegnum tíðina viljað gefa sem minnst upp um hvernig þeir muni bregðast við lausafjárvandræðunum.

Lögð hafi verið áhersla á að halda vissri óvissu þannig að bankar fari ekki að treysta á að verða bjargað af seðlabanka þegar í harðbakkann slær.

Ásgeir segir að undanfarið hafi þó verulega verið vikið frá þessari venju. Hlutverk seðlabanka sem lánveitanda til þrautavara hafi verið aukið, víkkað út og gert reglubundið. Seðlabankar séu því í raun orðnir miklu meira en bara lánveitendur til þrautavara og nálgist það frekar að verða fyrsti kostur fyrir bankakerfið.

Einnig hafi misst gildi sitt það lögmál að bankar geti orðið of stórir og mikilvægir til þess að fá að fara á hausinn. Ásgeir nefnir í því samhengi risavaxin gjaldþrot bæði Lehman Brothers og Washington Mutual Fund. Í tilviki hins síðarnefnda hafi seðlabanki Bandaríkjanna t.a.m. algjörlega breytt um stefnu þegar hann braust inn í bankann, tók til sín öll verðmæti og gekk þannig á svig við venjulega röð kröfuhafa.

„Ríkistryggðar bankainnistæður eru málið í dag,“ segir Ásgeir, en útibúanet segir hann miklu meira virði nú en áður. Ríkistryggðar bankainnistæður verði hagstæðasta fjármögnun sem völ er á.