Hugbúnaðarfyrirtækið AppLovin hefur lagt fram samrunatilboð til stjórnar Unity Software, sem Davíð Helgason stofnaði og á ríflega 3% hlut í. Tilboðið felur í sér að hluthafar Unity eignist 55% af hlutafé sameinaðs félags og skipi meirihluta af stjórnarmönnum en fái þó aðeins 49% atkvæðisrétt.

Tilboðið, sem tilkynnt var um fyrir opnun markaða á þriðjudaginn, metur Unity á 17,5 milljarða dala eða 58,85 dali á hlut, sem er um 18% yfir lokagengi Unity á mánudaginn. AppLovin sagði að heildarvirði (e. enterprise value) Unity í tilboðinu væri 20 milljarðar dala.

Davíð Helgason, einn þriggja stofnenda Unity og sitjandi stjórnarmaður, á ríflega 9,15 milljónir að nafnverði eða um 3,1% hlut í Unity. Eignarhlutur Davíðs, sem starfaði sem forstjóri félagsins til ársins 2014, er því metinn á 539 milljónir dala eða nærri 73 milljarða króna. Verði tilboðið samþykkt mun Davíð fara með 1,7% hlut í sameinuðu félagi.

Setur fyrri áform Unity í uppnám

Um miðjan júlí síðastliðin tilkynnti Unity um samkomulag um kaup á ironSource, keppinaut AppLovin, til að bæta tæknilausnir á auglýsingahlið sinni sem hefur liðið fyrir breytingar Apple varðandi öflun persónuupplýsinga. IronSource var metið á 4,4 milljarða dala í tilboðinu sem felur í sér að hluthafar fyrirtækisins eignist 26,5% hlut í Unity. AppLovin krefst þess þó að Unity falli frá yfirtökutilboðinu í ironSource.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið, en einnig er fjallað um:

  • Rætt er við Matthías Ólafsson, nýjan framkvæmdastjóra Metanól stofnunarinnar í Evrópu
  • Knattspyrnurisinn Barcelona veðsetur framtíðina til að ná árangri í dag.
  • Fjölmiðlarýnir fjallar um haustverkin og háleynilega prósentuútreikninga í skjóli nætur.
  • Týr fjallar um drauma Sólveigar Önnu um byltingu.
  • Hagnaður og velta tíu stærstu útgerða landsins jókst verulega milli áranna 2020 og 2021
  • Rætt er Magnús Baldvinsson, eiganda LM um stöðuna í heilbrigðiskerfinu og árangur félagsins.
  • Fjallað er um umfang starfsemi Kaupfélags Skagafjarðar