Samningur hefur verið undirritaður við Edduborgir ehf. um land í miðbæ Eskifjarðar en þar hyggst fyrirtækið reisa þrjú 4 og 5 hæða fjölbýlishús með rúmlega 50 íbúðum. Svæðið sem um ræðir afmarkast af Grjótárgötu, Útkaupstaðarbraut, Strandgötu og Túngötu og er hugmynd fyrirtækisins að íbúðirnar verði hannaðar með þarfir 50 ára og eldri í huga. Að auki er gert ráð fyrir byggingu þjónustuhúss á svæðinu.

Vinna er þegar hafin við deiliskipulagsgerð og mun henni verða lokið á næstu mánuðum en fyrirtækið stefnir að því að sala á íbúðunum hefjist snemma á næsta ári. Fjarlægt verður iðnaðarhús sem stendur á svæðinu og hýst hefur bifreið- og vélaverkstæði. Í samkomulaginu er jafnframt gert ráð fyrir flutningi Gömlu búðar sem er í eigu Sjóminjasafns Austurlands en stjórn stofnunarinnar hefur stefnt að því að húsið verði flutt á safnasvæðið við Randulfssjóhús í útbæ Eskifjarðar.