Róbert Wessman, athafnamaður og fyrrverandi forstjóri Actavis, skoðaði starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja með starfsmönnum heilbrigðisráðuneytisins á dögunum, að sögn Helgu Sigrúnar Harðardóttur, þingmanns Framsóknarflokks.

Fram kom í máli hennar á Alþingi í dag að hann hefði sýnt skurðstofunum sérstakan áhuga. Til stæði að loka þeim.

Þingmaðurinn kveðst í samtali við Viðskiptablaðið hafa áhyggjur af því að keyra eigi stofnunina í þrot og afhenda auðmönnum svo ná megi fram einkavæðingarstefnu sjálfstæðismanna.

Verið að skoða skipulagsbreytingar

Fram kom í málu Helgu Sigrúnar í fyrirspurnartíma á Alþingi fyrr í dag að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefði til margra ára verið úthlutað af hálfu ríkisins töluvert minna fjármagni en öðrum sambærilegum stofnunum.

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra svaraði því til um fjárframlagið til stofnunarinnar ekki væri einfalt að bera það saman við aðrar stofnanir með þessum hætti.

„Það liggur fyrir varðandi Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að þar hafa menn verið að skoða ýmsa þætti með stjórnendum m.a. og starfsfólki heilbrigðisstofununarinnar til að sjá hvar þar megi betur fara," sagði hann.

Nú væri til að mynda verið að skoða mögulegar skipulagsbreytingar hjá heilbrigðisstofnunum í Kraga-kjördæminu.

Spyr um hlutverk auðmanna

Ráðherrann svaraði ekki spurningum þingmannsins um ferðir auðmannsins á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Helga Sigrún spurði því aftur: „Hvert er hlutverk auðmanna í heilbrigðsstefnu hins nýja Íslands núverandi ríkisstjórnar?"

Ráðherrann svaraði því þá til að auðmönnum væri ekki ætlað neitt sérstakt hlutverk í heilbrigðisþjónustu landsmanna. „Ég get ekki svarað fyrir allar heimsóknir í heilbrigðisstofnanir. Þær eru margar. Sem betur fer hafa mjög margir aðilar, innlendir sem erlendir, veitt því eftirtekt hve gríðarlega mikil góð gæði eru í íslenskri heilbrigðisþjónustu," sagði hann og bætti við:

„Og eins og menn hafa kannski séð í fréttum eru menn jafnvel að huga að innflutningi sjúklinga til landsins og er það vel."