Í fjölmennri formlegri opnun Apótekarans í Holtagörðum fékk fyrsti róbótinn sem starfandi er í íslensku apóteki nafnið “Róbert Davíð”, segir í fréttatilkynningu.

Í ávarpi sem Guðni B. Guðnason framkvæmdastjóri hélt í vígslunni kom fram að nafnið væri tilkomið af því að Róbert væri skírskotun í “róbóta” en Davíð væri í höfuðið á eldhuganum og frumkvöðlinum Davíð Scheving Thorsteinssyni fyrrverandi forstjóra Sólar.

Davíð innleiddi fyrir meira en 20 árum síðan róbóta hjá Sól sem hét Golíat og notaður var við samantekt á lager. Golíat var hinsvegar stór og klunnalegur en Davíð í apótekinu væri minni, sneggri og fimari. Í ávarpi Guðna kom fram að róbótatæknin væri vel þekkt í Þýskalandi en er að hefja innreið sína til Norðurlanda m.a. til Danmerkur og Svíþjóðar. Á myndbandi sem sýnt er í apótekinu má sjá hvernig róbótinn virkar.

Í máli Guðna kom einnig fram að ”Robbi” sparar a.m.k. eitt stöðugildi í apótekinu og leysir sín verk af nákvæmni og öryggi. Fer ekki í sumarfrí og verður ekki veikur. Við athöfnina var skálað fyrir nýja starfskraftinum í ”Trópí”.