Hlutabréf hækkuðu í Asíu í morgun eftir að hlutabréfamarkaðir hækkuðu lítillega í Bandaríkjunum í gær. Rekja mátti hækkunina í Bandaríkjunum til þess að nýjar og jákvæðar tölur um framleiðslu voru birtar vestanhafs í gær. Þannig náði Dow Jones vísitalan fjögurra ára hámarki í Bandaríkjunum í gærkvöldi eftir að hafa hækkað um 0,5%.

Að sögn Reuters fréttastofunnar voru fjárfestar í Asíu þó hikandi í dag og viðskipti með minna móti en eðlilegt er. Á morgun er frídagur víða í Asíu en viðskipti á mörkuðum í nótt hafa ekki verið minni frá því um síðustu jól. Þá hefur Bloomberg fréttaveitan eftir viðmælendum sínum að kosningar í Frakklandi og Grikklandi valdi fjárfestum óróa, en báðar kosningarnar kunna að hafa nokkur áhrif á þegar viðkvæmda fjármálamarkaði í Evrópu þegar fram í sækir.

MSCI Kyrrahafs vísitalan hækkaði um 1,1% í morgun. Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 0,3%, í Kína hækkaði CSI 300 vísitalan 2,2% og í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan um 1%. Í S-Kóreu hækkaði Kospi vísitalan 0,9% og í Ástralíu hækkaði S&P 200 vísitalan um 0,1%.

Þá hafa hlutabréfamarkaði hækkað lítillega í Evrópu það sem af er degi. Viðskipti fara þó hægt af stað en markaðir voru víða lokaðir í dag, 1. maí.

Í Amserdam hefur AEX vísitalan hækkað um 0,6%, í Frankfurt hefur DAX vísitalan hækkað um 0,7% og í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan staðið í stað í morgun. Í París hefur CAC 40 vísitalan hækkað um 1,1% en í Zurich hefur SMI vísitalan hækkað um 1,1%. Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan staðið í stað í morgun, í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan lækkað um 0,1% en í Osló hefur OBX vísitalan hækkað um 0,4%.