Fjármálamógúllinn Nat Rothschild hafði ekki erindi sem erfiði í tilraun hans til að skipta út stjórn indónesíska námafyrirtækisins Bumi, sem hann hjálpaði til við að stofna á sínum tíma. Í frétt Financial Times segir að á hluthafafundi, sem haldinn var í London í dag, hafi Rothschild reynt að skipta út tólf af fjórtán stjórnarmönnum, en 61% hluthafa greiddu atkvæði gegn honum.

Meðal þeirra sem hann vildi losna við voru forstjórinn Nick von Schirnding og varaformaður stjórnarinnar, Julian Horne-Smith. Stjórnarformaðurinn Samir Tan, sem er áhrifamikill í indónesísku viðskiptalífi, sagðist myndu segja af sér stjórnarformennskunni þegar nýr óháður formaður fyndist.

Gengi hlutabréfa Bumi hefur lækkað um helming á síðustu tólf mánuðum, ekki síst vegna ósættis milli stofnenda fyrirtækisins og vegna ásakana um fjármálamisferli hjá Bumi.