Seðlabanki Rússlands tilkynnti í dag að hann hafi afturkallað rekstrarleyfi þriggja banka þar í landi. Ákvörðunin er liður í átaki fjármálayfirvalda þar í landi gegn því sem þar er kallað skuggalegt fjármálavafstur auk þess sem þeir hafi ekki getað staðið við skuldbindingar sínar. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur hvatt til þess að gripið verði til aðgerða til að sporna við útflæði á fjármagni.

Reuters-fréttastofan segir að stærsti bankinn af þeim þremur sem var lokað sé Investbank, sem er í sæti 79 af stærstu bönkum Rússlands ef aðeins er litið til eignastöðu. Hann virðist hafa átt í vandræðum með að geta greit viðskiptavinum sínum.

Reuters segir að seðlabankinn hafi afturkallað leyfi 30 banka síðan Elvira Nabiullina settist í stól seðlabankastjóra í júní.