Alþjóðlega olympíunefndin hefur ákveðið að leyfa rússneskum íþróttamönnum að taka þátt í olympíuleikunum í Rio de Janeiro sem hefjast 5. ágúst næstkomandi. Um tíma leit út fyrir að íþróttamenn frá landinu yrðu alveg útilokaðir frá keppni í kjölfar þess að upplýst var um gríðarumfangsmikið lyfjamisferli sem stutt var af rússneska ríkinu.

Þurfa að standast alþjóðleg lyfjapróf

Íþróttamennirnir geta einungis keppt ef þeir geta staðist alþjóðleg lyfjapróf, en rússnesk próf verða ekki tekin gild. Íþróttamálaráðherra Rússlands, Vitaly Mutko segist vera alveg viss um að flestir íþróttamennirnir standist kröfur olympíunefndarinnar.

Bannið nær þó til allra íþróttamanna frá Rússlandi sem hafa einhvern tíma verið uppvísir um lyfjanotkun. Jafnframt verða allir íþróttamenn og yfirmenn íþróttamála sem upplýst var um að hefðu brotið reglur í skýrslu lögfræðingsins Richard McLaren sem alþjóðastofnun sem berst gegn lyfjanotkun lét gera.

Vestrænt samsæri segir Putin

Vladimir Putin, forseti Rússlands hefur ýjað að því að skýrslan sé hluti af pólítísku samsæri vesturlanda til að draga úr vægi Rússlands í heiminum. Yfirmenn íþróttamála í landinu hafa þverneitað niðurstöðum skýrslunnar, en Putin hefur samt sem áður vikið mörgum þeirra frá störfum.

Skammur tími er til stefnu fyrir íþróttamennina sem vilja keppa að fá alþjóðlegar viðurkenningar þar sem alþjóðlegar íþróttamálastofnanir þurfa að samþykkja hundruðir íþróttamanna á minna en tveim vikum. Um 60 keppendur í frjálsum íþróttum voru útilokaðir frá keppni en tveim hefur verið leyft að keppa, þar á meðal Yuliya Stepanova, sem upplýsti um lyfjamisferlið en hún hefur verið kölluð svikari af rússneskum ráðamönnum.