Sænska fyrirtækið Storytel keypti í fyrir um tveimur vikum síðan Skynjun ehf., sem framleiðir og gefur út raf- og hljóðbækur, ásamt því að halda úti eBækur.is. Kaupverðið er áætlað 200 þúsund evrur, eða því sem nemur 25,4 milljónum íslenskra króna.

Greitt verður fyrir kaupin með hlutabréfum í Storytel auk svokallaðrar „earnout“ greiðslu. Storytel, sem var stofnað árið 2005 af Jonas Tellander og Jóni Haukssyni, framleiðir hugbúnað fyrir snjallsíma og spjaldtölvur sem gerir fólki kleift að hlusta á víðtækt úrval hljóðbóka og lesa rafbækur.

Þetta eru þriðju kaup Storytel á hljóðbókaútgefendum á tiltölulega skömmum tíma, en fyrirtækið keypti nýlega búlgaríska fyrirtækið D&D Factory fyrir 100 þúsund evrur og tyrkneska fyrirtækið Seslenenkitap fyrir 170 þúsund evrur.