Mikil aukning hefur verið á sölu á frosnu grænmeti í Bretlandi á síðasta ári og hefur sala á slíkum varningi aukist um 20% á árinu í Iceland-verslunarkeðjunni, sem er í eigu Baugs og annarra íslenskra fjárfesta, segir í frétt The Evening Standard.

Í fréttinni segir að aukið úrval matvælategunda og aukin meðvitund um áhrif flutninga matvæla á umhverfið (e. food miles) hafa orðið til þess að fryst matvæli hafa verið að sækja í sig veðrið.

Talsmaður matvælaframleiðandans Birdseye, sem sérhæfir sig í frosnum matvælum, segir að þar sem aðeins sé hægt að rækta grænmeti á ákveðnum tíma árs og að neytendur kjósi nú í auknu mæli að kaupa innlenda vöru, sé varan fryst svo hægt sé að neyta hennar allan ársins hring og að frystiskápar séu nú að skipa sér fastan sess í eldhúsum landsmanna. Sala frystra matvæla hefur aukist um 8% hjá Birdseye á árinu.

Frystar matvörur þykja einnig vera hollari að því leyti að vítamín og önnur næringarefni haldast í vörunni á meðan hún er fryst og að þar sem frysting er náttúruleg geymsluaðferð þarf ekki að bæta við eins miklum rotvarnarefnum en ella, segir í fréttinni.

Aukning á sölu frystra matvæla hefur einnig skilað sér í aukningu á sölu frystiskápa, en sala þeirra hefur aukist um 51% á milli ára í verslunum John Lewis.