*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 3. júní 2020 19:47

Sala Good Good á Amazon þrefaldaðist

Veltan hefur margfaldast ár frá ári, því voru tilbúnir með keto-vörur áður en æðið hófst. Veltan stefnir yfir 600 milljónir í ár.

Höskuldur Marselíusarson
Garðar Stefánsson, framkvæmdastjóri Good Good, og Jóhann Ingi Kristjánsson stjórnarformaður eru einu starfsmenn félagsins sem stefnir á 600 milljóna veltu í ár.
Aðsend mynd

Garðar Stefánsson, framkvæmdastjóri og annar tveggja starfsmanna Good Good í fullu starfi, segir að velta félagsins í ár stefni á 4,5 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 608 milljónum íslenskra króna. Það er ríflega 140% aukning frá árinu 2019 þegar veltan nam tæplega 1,9 milljónum dala.

„COVID-19 stoppaði ekki sölu á þeim mörkuðum sem við erum á, jú það varð minnkun í sumum búðum, eins og í New York og Los Angels, en netsalan hefur verið frábær hjá okkur. Við höfum nánast þrefaldað söluna okkar á Amazon.com og Amazon.co.uk. Í janúar nam hún tæplega 57 þúsund Bandaríkjadölum, en í maímánuði var hún orðin næstum 167 þúsund dalir,“ segir Garðar, en á lista Amazon yfir söluhæstu vörurnar eru sultur félagsins að raða sér ýmist í 1. eða 2. sætið þessa dagana.

„Við erum með vörurnar okkar í 1.800 búðum í Bandaríkjunum, þar af mörgum stórum keðjum eins og Walmart, Safeway, Save- Mart, Meijer, Lucky´s og fleiri, og eru þær á boðstólunum í 36 ríkjum landsins. Í dag nemur salan vestanhafs um 45% af heildinni, en 55% er í Evrópu, þar sem þær eru í um 700 búðum. Við erum búin að vera með vörur okkar til sölu frá 2015 hérna á Íslandi og 2016 í Evrópu, en ekki nema frá haustinu 2018 í Bandaríkjunum, svo við höfum vaxið gríðarlega þar. Síðan erum við nýfarnir að selja í Kanada.“

Vöxtur Good Good, sem stofnað var sem Via Health árið 2015, hefur verið mikill á síðustu árum, en veltan var rétt um 41 þúsund dalir það ár. Hún náði 172 þúsund dölum árið eftir, og síðan tvöfaldaðist hún árið 2017 í 331 þúsund dali, en þrefaldaðist árið eftir í ríflega 1 milljón dali. Þessi árangur og nýlegt 400 milljóna króna hlutafjárútboð félagsins vakti athygli víða, en í grein tímaritsins Forbes um fyrirtækið eru bæði eldri íslenskir fjárfestar á bak við félagið, eins og Icepharma og Aton.JL, nefndir sem og nýrri eins og Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir.

Nutu ketóæðisins

„Hugmyndin á bak við vörumerkið Good Good er að varan á að vera bæði góð á bragðið og góð fyrir mann, þetta á að vera vörumerki án viðbætts sykurs. Við erum hjálparhella fyrir þá sem vilja minnka sykurneyslu sína, en þróunin hefur verið í þá átt síðustu ár.

Síðan kom ketó-bylgjan þegar við vorum byrjaðir að keyra á vörurnar okkar og búa til sulturnar, súkkulaðismjörið og sýrópið okkar, og varð þetta því gríðarlega vinsælt og nutum við þess að vera fyrstir. Það er að vörurnar okkar voru flestar ketó áður en ketó varð svona vinsælt. Það er svo líka partur af okkar nálgun að vera á viðráðanlegu verði, að neitandinn geti gripið heilsusamlegan valkost án þess að tapa buddunni í leiðinni,“ segir Garðar.

Ketó-mataræðið svokallaða hefur orðið gríðarlega vinsælt síðustu ár, en það byggir á því að koma líkamanum í ketósis ástand. Það gerist við það að dregið sé það mikið úr neyslu sykurs og kolvetna að í stað þess að blóðsykurinn hækki nóg til að insúlínið taki við sér til að nýta hann sem orkugjafa, sé því hormóni haldið nógu lágu að í staðinn byrji lifrin á því að brjóta niður fituforða líkamans til að fá orku. Við það losna svokölluð ketón út með þvagi sem eru mælanleg.

„Þetta fer af stað svona árið 2018, og þá erum við einmitt að byrja að selja í Bandaríkjunum og svo í fyrra finnum við að þetta er komið á fleygiferð. Núna árið 2020 er þetta enn að aukast, en eftir að vörur okkar voru merktar sem ketó á Amazon hefur salan þrefaldast síðustu þrjá mánuði.

Ástæðan er númer eitt, tvö og þrjú sú að þetta virkar, að fólk er að ná að gjörbreyta lífi sínu til hins betra án þess að þurfa að fara í gegnum drastískar breytingar, hætta að borða og þjást. Heldur er fólk að byrja rólega, skera út kolvetnin úr matnum smátt og smátt, oft með því að fasta líka, það er gefa sér ákveðin tímamörk til að borða, en fyrir flesta virkar að halda sér undir um 20 grömmum af kolvetnum á dag svo blóðsykurinn hækki ekki,“ segir Garðar.

„Fullt af ýmiss konar ketó-vörum hafa verið að koma á markað enda lengi verið áhersla á kolvetnalágt mataræði, mikið af þannig brauði hefur til dæmis komið fram, en í þeim geirum sem við erum öflugir, sultum og öðrum smyrjum, var ekkert að frétta. Það er enginn alvöru keppinautur í sykurlausum vörum í Evrópu, en eitt fyrirtæki í Bandaríkjunum, Nature´s Hollow, en það notar sætuefni sem er ekki jafngott fyrir líkamann og við notum.

Málið er að þótt fólk sé búið að skera út sykurinn, þá þarf ekki endilega að skera burt alla sætu, en við fengum reyndar gríðarlega mikið af fyrirspurnum þar sem fólk spurði hvað það ætti að gera við vörur okkar ef þeir mættu ekki borða brauð. Alls konar aðrir valmöguleikar hafa verið að opnast, fólk er að setja þetta út í jógúrt, og skyr, borða þetta með osti, eða sem ídýfu fyrir ostasnakk.

Þeir sem ætla að nýta sér það að fara í ketósis, það er láta líkamann brenna fitu, er hvatt til að borða osta og annað fituríkt fæði, og tekur þessi hópur okkur fagnandi því við erum að gefa þeim kost á að fá sætuna aftur, án samviskubits.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallamatur framleiðir fulleldaðan þurrmat sem ku bragðast líkt og heimilismatur
  • Frumvarp um breytingar á gjaldþrotaskiptalögum gæti brotið gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar
  • Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, fagnar hækkun á endurgreiðslu vegna rannsóknar og þróunar.
  • Fjallað um fyrirhuguð greiðsluskjól og breytingar á gjaldþrotaskiptalögunum
  • Ítarleg umfjöllun um afkomu tölvuleikjafyrirtækisins CCP
  • Viðtal við Úlfar Frey sem tók nýverið við stöðu framkvæmdastjóra áhættustýringar hjá Arion banka
  • Feðgin stofnuðu fyrirtæki sem sérhæfir sig í íslenskri hönnun og endurnýtingu efna
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um óaldalýð í Bandaríkjunum