Hagnaður Mosaic Fashions fyrir skatta á fyrsta ársfjórðungi dróst saman í 1,2 milljónir punda (165 milljónir króna) úr 1,3 milljónum á sama tíma í fyrra, segir í tilkynningu. Hreinn hagnaður jókst hins vegar um 33% í 0,8 milljónir punda.

Samráttinn má rekja til dræmrar sölu á vörumerkjunum Oasis og Whitles, segir í tilkynningunni, en fyrirtækið birti fjórðungsuppgjör sitt í dag.

Hins vegar jukust sölutekjur um 11% í 89,4 milljónir punda vegna söluaukningar á vörumerkjunum Karen Millen og Coast, en hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) dróst saman um 11% í 10,1 milljón punda.

Derek Lovelock, forstjóri Mosaic Fashions, segir afkomuna ásættanlega í ljósi þess hve smásöluumhverfið í Bretlandi sé erfitt og að árangurinn verði í takt við væntingar á árinu.

Mosaic Fashions, sem er að mestu leyti í eigu Baugs og er skráð í Kauphöll Íslands, samþykkti nýverið að kaupa breska keppinautinn Rubicon Retail fyrir 353 milljónir punda, að skuldum meðtöldum. Talið er að skuldir félagsins séu um rúmlega 100 milljónir punda.