Sala Össurar hf. á þriðja ársfjórðungi 2004 nam 30,7 milljónum Bandaríkjadala (2,2 milljörðum íslenskra króna) samanborið við 22,4 milljónir á þriðja fjórðungi í fyrra. Sala jókst um 37% í Bandaríkjadölum en mælt í staðbundinni mynt var aukningin 33% milli ára. Ef söluaukning vegna fyrirtækjakaupa er undanskilin, jókst sala í staðbundinni mynt um 10%.

Rekstrarhagnaður var 5,5 milljónir dala (394 milljónir íslenskra króna) og jókst um 87% milli ára.

Hagnaður þriðja ársfjórðungs var 4,7 milljónir dala (335 milljónir íslenskra króna*) og ríflega tvöfaldaðist frá fyrra ári.

Hagnaður á hlut (EPS) á þriðja fjórðungi 2004 tvöfaldaðist frá fyrra ári og var 1,47 bandarísk sent samanborið við 0,70 sent á hlut á þriðja fjórðungi 2003.

Árshlutareikningur þriðja fjórðungs 2004 fyrir félagssamstæðu Össurar hf. var samþykktur á stjórnarfundi 25. október. Árshlutareikningurinn, sem gerður er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS-International financial reporting standards), hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins og áritaður án athugasemda.

Samstæða Össurar hf. samanstendur í meginatriðum af Össuri hf. á Íslandi, samstæðu Össur Holdings Inc. í USA, samstæðu Össur Holding AB í Svíþjóð og Össur Europe B.V. í Hollandi auk Generation II Orthotics, Inc. í Canada.