Salt Pay Co Ltd., nýr eigandi Borgunar, hyggst ráðast í verulega stækkun fyrirtækisins og ráða 60 nýja starfsmenn á næstu 6 mánuðum hér á landi, samkvæmt fréttatilkynningu.

Stór hluti nýráðninganna verður úr hópi nýútskrifaðra háskólanema sem fara munu í gegnum sérstaka þjálfun á ýmsum sviðum, segir í tilkynningunni. Salt Pay mun leggja umtalsverða fjármuni í uppbyggingu félagsins á næstunni en fyrirtækið fæst við tæknilausnir og þjónustu við söluaðila víða um Evrópu.

Fréttablaðið greindi frá því fyrr í dag að tólf starfsmönnum úr æðsta stjórnendalagi Borgunar hafi verið sagt upp. Í tilkynningu Borgunar segir að samhliða tilkynningu gærdagsins um brotthvarf Sæmundar Sæmundssonar úr stóli forstjóra hafa örfáir stjórnendur og starfsmenn til viðbótar látið af störfum hjá félaginu, aðallega á þeim sviðum þar sem nýir stjórnendur taka við. Borgun segir að það hafi verið alls tíu manns að Sæmundi meðtöldum en ekki tólf líkt og Fréttablaðið greindi frá.

Ríflega 130 manns starfa hjá fyrirtækinu eftir breytingarnar en fjölgar, sem áður sagði, verulega á næstunni. Hluti þeirra stjórnenda sem áður mynduðu framkvæmdastjórn félagsins verða áfram í stjórnendahópnum eftir kaupin. Ráðning stjórnar fyrirtækisins á Eduardo Pontes og Marcos Nunes, sem eru nýir forstjórar Borgunar, er sagt vera upphafið á endurskipulagningu félagsins,

Jafnframt er tekið fram í tilkynningunni að markmiðið með kaupum Salt Pay á Borgun og ráðningu fjölda nýrra starfsmanna hér á landi er að ná forskoti í þróun lausna og þjónustu fyrir söluaðila í allri álfunni. Ekki aðeins í gegnum greiðslumiðlun heldur einnig með því að hjálpa söluaðilunum sjálfum að vaxa og ná fram aukinni skilvirkni í rekstri sínum. Salt Pay þjónar í dag milljónum söluaðila í 14 löndum.

„Við erum afar spennt fyrir að geta boðið ungu fólki á Íslandi ný tækifæri hjá ört stækkandi fyrirtæki. Það er sá hópur sem hefur orðið hvað verst úti í kjölfarið á COVID-19 og þarf nauðsynlega að fá sitt fyrsta tækifæri á vinnumarkaðnum. Við munum bjóða þeim þjálfun þar sem þau læra að þekkja þarfir viðskiptavina, þróa vörur og lausnir sem tryggja að söluaðilar fái bestu mögulega þjónustu,“ er haft eftir Marcos Nunes, forstjóra Borgunar.

„Hjá Salt Pay erum við vön að segja: Vertu forvitinn, vertu hugrakkur, taktu áhættu og vertu sífellt að rannsaka og reyna að skilja þarfir viðskiptavinanna. Við viljum skapa frumkvöðlaumhverfi hjá Borgun sem höfði til næstu kynslóðar leiðtoga í viðskiptalífinu og tæknigeiranum. Við vitum að ungt fólk á Íslandi vill láta til sín taka, láta gott af sér leiða og fá tækifæri til að starfa í alþjóðlegu umhverfi þar sem það getur byggt upp reynslu og öðlast hæfni sem skapar þeim farsælan starfsframa.“

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér fyrstu störfin sem í boði eru, geta nálgast nánari upplýsingar hér .