*

mánudagur, 20. september 2021
Innlent 19. júlí 2018 11:35

Samherji er kaupandinn í Eimskip

Fjárfestingarfélag útgerðarfélagsins kaupir fjórðungshlut í Eimskipafélaginu á 11 milljarða íslenskra króna af Yucaipa Company.

Ritstjórn
Þorsteinn Már Baldvinsson er forstjóri Samherja.
Aðsend mynd

Heildarkaupverð þeirra 50.600.000 hluta sem Samherji hefur keypt af bandaríska fjárfestingarfélaginu The Yucaipa Company nemur 11.132 milljónum króna. Systurfélag Samherja hf., Samherji Holding ehf., er kaupandinn af bréfunum í Eimskipafélagi Íslands hf.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá er um að ræða samtals 25,3% hlut í félaginu en hagnaður íslenska hluta Samherjasamstæðunnar árið 2016 nam 14.310 millljónum króna. Samherji Holding ehf. er félag um erlenda starfsemi Samherja.

„Eimskip er gamalgróið félag með trausta innviði, þrautreynt starfsfólk og góðan skipastól,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Hann segir að Samherji og Eimskip hafi á undanförnum árum víða verið með starfsemi á sömu svæðum.

„Eimskip er alþjóðlegt flutningafyrirtæki sem byggir starfsemi sína á góðri þjónustu við viðskiptavini með rekstri skipaflota á Norður-Atlantshafi. Við þekkjum á margan hátt ágætlega til reksturs skipa og mikilvægi flutninga í alþjóðlegu umhverfi. Það verður krefjandi en um leið ánægjulegt að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu félagsins í góðu samstarfi við aðra hluthafa.“