Fimmtán namibísk fiskifyrirtæki saka Esju Fishing, dótturfélag Samherja, um að svíkja 120 milljónum namibískum dollurum eða jafnvirði um 970 milljónum íslenskra króna af sameiginlegum bankareikningi. RÚV greinir frá en fréttin kemur fram í namibíska blaðinu Confidénte . Málið er til rannsóknar hjá lögreglu í Namibíu og hafa fyrirtækin ákveðið að taka málið fyrir dómstóla.

Samkvæmt heimildum Confidénte voru peningarniar millifærðir með rafrænum hætti á eins árs tímabili. Fullyrt er að namibísku fyrirtækjunum hafi verið meinaður aðgangur að reikningnum, sem er á nafni félagsins Arcticnam Investments, og reikningsyfirliti. Því er einnig haldið fram að tekjur Arcticnam Investments hafi numið 450 milljónum Namibíudollara, en að erlendir samstarfsaðilar hafi upplýst fyrirtækin um að hagnaðurinn hafi aðeins numið 10 milljónum.

Þá fullyrðir namibíska blaðið að eigendur Esju hafi þrýst á heimamenn til að draga kæruna til baka gegn greiðslu upp á 66 milljónir, en að namibísku fyrirtækin neiti því nema að 120 milljónirnar verði endurgreiddar.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hafnar öllum ásökunum í garð Esju og Samherja í yfirlýsingu til RÚV og segir fréttaflutning Confidénte ekki eiga við rök að styðjast. Sakar hann Confidénte einnig um að reyna að rjúfa samstöðu hluthafa félaganna. Andmæli hafa verið komin á framfæri við ritstjórn blaðsins,