Samkeppniseftirlitið hefur í dag framkvæmt húsleitir á skrifstofum Fóðurblöndunnar hf. og Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. Til húsleitanna var aflað úrskurða frá Héraðsdómi Reykjavíkur.

Þetta kemur fram á vef Samkeppniseftirlitsins.

Þar kemur fram að húsleitirnar eru liður í rannsókn Samkeppniseftirlitsins á ætluðum brotum þessara fyrirtækja á samkeppnislögum.

„Einkum lýtur rannsóknin að hugsanlegu verðsamráði þessara fyrirtækja á fóðurmarkaði, þ.e. á markaði fyrir framleiðslu og sölu á jórturdýra-, svína- og alifuglafóðri. Einnig er háttsemi á áburðarmarkaði til skoðunar,“ segir á vef stofnunarinnar.

Þá kemur fram að rannsóknin er grundvölluð á upplýsingum og gögnum sem Samkeppniseftirlitið hefur aflað og rannsókninni verði flýtt eftir því sem kostur er.