Samskip eru tilnefnd til verðlauna í flokknum "CI Niche Carrier 2006" á alþjóðlegri verðlaunahátíð Containerisation International Awards 2006, sem samnefnt tímarit og eitt virtasta fagblaðið í flutningaþjónustu, stendur nú fyrir í fyrsta sinn. Tilefnið er 50 ára afmæli alþjóðlegra gámaflutninga en stefnt er að því að CI verðlaunahátíðin verði framvegis árlegur viðburður í greininni, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Samskipum.

"Útleggja má tilnefningu Samskipa sem "flutningafélag á réttri hillu" og segir Michael F. Hassing, annar forstjóra Samskipa, að nú verði kúrsinn settur á það markmið að hljóta tilnefningu að ári sem CI Regional Carrier - besta svæðisbundna flutningafélagið - og að sjálfsögðu helst að hreppa hnossið.

Í greinargerð með tilnefningunni til Niche Carrier 2006 verðlaunanna kemur fram að þau séu veitt fyrir:

Umbætur á flutningakerfi viðkomandi félags.

Fyrir þróunarvinnu til að koma betur til móts við þarfir viðskiptavina.

Vegna skuldbindinga sem flutningafélag hefur tekið á sig í greininni, s.s. vegna eignakaupa.

Í umsögn um Samskip kemur fram að árið 2005 hafi félagið kynnt áform sín um uppbyggingu öflugrar gámaflutningaþjónustu í Norður-Evrópu. Félagið hafi keypt bæði Geest North Sea Line og Seawheel og sameinað rekstri Samskipa, sem þar með sé orðið stærsta gámaflutningafélag innan Evrópu. Jafnframt hafi Samskip opnað nýjar skrifstofur í Asíu og Eystrasaltslöndunum á liðnu ári, ásamt áframhaldandi uppbyggingu tölvukerfa félagsins.

Fjögur önnur flutningafélög eru tilnefnd til verðlauna í sama flokki og Samskip en alls er tilnefnt til verðlauna í 13 flokkum, tengdum alþjóðlegum siglingum og flutningastarfsemi, vegna CI verðlaunanna 2006. Tilkynnt verður um vinningshafana við hátíðlega athöfn í New York í dag, 23. mars 2006," segir í tilkynningu.