Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í morgun beiðni Samson eignarhaldsfélags um framlengingu greiðslustöðvunar en félagið fékk eins og kunnugt er greiðslustöðvun þann 7. október síðastliðinn eftir að ríkið yfirtók rekstur Landsbankans.

Greiðslustöðvunin rann út þann 28. október síðastliðinn og hafði félagið óskað eftir framlengingu.

Samson er í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Í greinargerð lögmanns Samson kom fram að vegna þeirrar óvissu sem ríkt hafi í viðskiptalífinu og þeirrar miklu óvissu sem ríki um verðmæti megin eigna félagsins, hafi stjórn Samson talið nauðsynlegt að óska eftir framlengingu heimildar til greiðslustöðvunar til þess að vernda þau verðmæti sem eftir eru í félaginu.

Þegar óskað var eftir framlengingu krafðist lögmaður Commerzbank þess að beiðninni yrði hafnað.

Lögmaður Commerzbank sagði meðal annars í greinargerð sinni að Samson hafi ekki lagt fram neinar áætlanir um að afla nýs hlutafjár eða annarra fjárframlaga inn í félagið. Þá taldi lögmaðurinn að áframhaldandi greiðslustöðvun muni ekki þjóna neinum tilgangi þar sem útséð sé með að nýrri skipan verði komið á fjármál Samson og gjaldþrot blasi því við.

Sjá úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur.