Þvert á það sem menn gætu haldið selur Samsung mun fleiri snjallsíma en Apple að því er kemur fram í tölum breska fyrirtækisins Strategy Analytics. Á þriðja fjórðungi ársins seldi Samsung þannig tæplega 28 milljónir snjallsíma en Apple seldi aftur á móti „aðeins“ rúmar 17 milljónir síma. Markaðshlutdeild Samsung er þannig tæplega 24% en markaðshlutdeild Apple 14,6%.

Þetta hefur breyst á skömmum tíma því á öðrum fjórðungi ársins var Apple á toppnum en fram að þeim tíma seldi Nokia reyndar flesta snjallsíma en Nokia er nú fallið í þriðja sæti. Hlutdeild Nokia á þessum markaði hefur hríðfallið eða úr tæplega 33% í 14,4% á aðeins um einu ári. Markaðurinn fyrir snjallsíma hefur vaxið gríðarlega hratt og þannig var heildarsalan 117 milljónir síma á þriðja ársfjórðungi en það er 44% aukning frá sama tímabili í fyrra.