Fjármálaráðherra sextán ríkja sem nota evru hafa komist að samkomulagi um stofnun risavaxins björgunarsjóðs sem á að koma aðildarríkjum evrunnar til bjargar lendi þau í vandræðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Hvert og eitt ríki hefur skuldbundið sig til að tryggja fjármögnun sjóðsins sem mun geta ráðið yfir allt að 750 milljörðum evra. Auk ríkjanna hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins aðkomu að sjóðnum. Frá þessu er sagt bæði í Financial Times og Wall Street Journal í kvöld.

Sérstök stjórn verður skipuð yfir björgunarsjóðnum sem verður staðsettur í Lúxemborg. Er þetta talið skref í þá átt að ríkin hjálpist að við að móta sameiginlega stefnu í ríkisfjármálum. Þau lönd sem lenda í vandræðum með ríkisfjármál sín, meðal annars vegna mikils skuldavanda, fá þá aðstoð frá sjóðnum að því uppfylltu að þau undirgangist ákveðin skilyrði sem varða endurskipulagningu.

Olli Rehn, sem á sæti í framkvæmdastjórn ESB, segir við FT að nú sé óvissu eytt um sameiginlega ábyrgð evruríkja og tryggt að ríkin beri ábyrgð á hvert öðru. Er gert ráð fyrir að þetta fyrirkomulag tryggi að björgunarsjóðurinn fái bestu hugsanlegu lánshæfiseinkunn sem gerir honum kleift að útvega peninga til að koma ríkjum í nauð til bjargar.