Sheryl Sandberg, rekstrarstjóri hjá Facebook, hefur losað sig við meira en helming af hlut sínum í samfélagsmiðlinum frá því að fyrirtækið fór á markað fyrir tæpum tveimur árum síðan. Financial Times greindi frá þessu fyrr í vikunni, en sala Sandberg á hlutabréfum í Facebook hefur vakið athygli vestanhafs.

Hafa fjölmiðlar velt því upp hvort Sandberg muni stíga niður sem rekstrarstjóri Facebook og færa sig um set til annars fyrirtækis eða jafnvel taka við pólitískri stöðu í Bandaríkjunum.

Hefur Sandberg þó ítrekað neitað því að hún stefni á slíkt starf, og hefur lýst því yfir að pólitík henti henni ekki. Starfaði Sandberg meðal annars áður sem starfsmannastjóri fyrir Lawrence Summers þegar Summers var fjármálaráðherra á tíma Clintons. Sandberg er enn meðal stærstu einstaka fjárfesta í Facebook, með um 0,5% hlut að virði um einn milljarð dollara, þrátt fyrir sölu síðustu mánaða.