Nicolas Sarkozy útlistaði á mánudaginn helstu markmið franskra stjórnvalda í utanríkismálum. Niðurstaðan er að sumu leyti fráhvarf frá þeirri "gaullísku" utanríkisstefnu sem forveri hans í embætti - og flestir aðrir forsetar Frakklands - framfylgdi í valdatíð sinni.

Frakkar munu þrýsta á virkari öryggis- og varnarmálastefnu fyrir Evrópusambandið (ESB) þegar þeir taka við forystu í sambandinu á næsta ári, með það að markmiði að gera Evrópu að raunverulegu afli á alþjóðavettvangi, sem myndi stuðla að réttlátari og áhrifaríkari skipan í alþjóðamálum. Þetta var meðal þess sem kom fram í fyrstu stóru ræðu Nicolas Sarkozy eftir að hann var kjörinn Frakklandsforseti síðastliðinn maí, að því er Financial Times greinir frá. Sarkozy lýsti ESB sem ákveðinni fyrirmynd að árangursríku fjölþjóðlegu samstarfi sem hefði jafnframt ýmiss konar tæki til að fást við þær hættur sem uppi eru hverju sinni í alþjóðastjórnmálum, meðal annars hernaðarmátt, mannúðar - og fjárhagsaðstoð.

Samrunaþróun ESB forgangsatriði í utanríkisstefnu Frakklands
Í ræðu Sarkozy, sem var flutt fyrir framan 180 helstu ríkiserindreka Frakklands, sagði forsetinn að það væru einkum þrjár áskoranir sem "alþjóðasamfélagið" stæði frammi fyrir um þessar mundir: Að koma í veg fyrir hugmyndafræðileg átök hins íslamska heims og Vesturlanda; samþætta rísandi ríki á borð við Kína, Indland og Brasilíu inn í helstu valdastofnanir alþjóðakerfisins; og takast á við þær hættur sem hljótast af hlýnun jarðar, útbreiðslu farsótta og samkeppni ríkja um að tryggja sér aðgang að orkuauðlindum.

Frakklandsforseti færði jafnframt rök fyrir því að þrátt fyrir að þjóðríkin væru enn þær grundvallarstoðir sem mynduðu sjálft alþjóðakerfið, þá væru fullvalda ríki í mörgum tilfellum ekki best til þess fallin við að takast á við slíkar áskoranir: Efnahagslegir hagsmunir, áhrif fjölmiðla, glæpagengi og hryðjuverk eru allt þættir sem hamla getu stjórnvalda til að ráðast í skynsamar og nauðsynlegar aðgerðir. Af þeim sökum er hið nána samstarf sem þróast hefur á meðal aðildarríkja ESB oft mun heppilegri vettvangur til að glíma við þessar nýju áskoranir á okkar tímum, segir Sarkozy. Hann tók meðal annars sem dæmi í þessu samhengi einhliða hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna í Írak og hrósaði forvera sínum í embætti forseta, Jacques Chirac, fyrir að taka einarða afstöðu gegn innrásinni, sem hann sagði að "sagan hefði fært sönnur á að hefði verið rétt" ákvörðun.

Málefni er varða samrunaþróun Evrópusambandsins munu verða algjört lykilatriði í utanríkisstefnu Frakklands, segir Sarkozy og bætir því við að "Frakkland væri ekki öflugt án Evrópu, ekki fremur en Evrópa yrði öflug án Frakklands". Það er aðildarríkjum ESB hins vegar nauðsynlegt að þróa með sér sameiginlega sýn til helstu ógna samtímans og hvernig ríki sambandsins geti í sameiningu brugðist við þeim, að mati Sarkozy. Að sama skapi ítrekaði hann að aðildarríki ESB þyrftu að samþykkja að veita mun stærra hlutfalli af vergri þjóðarframleiðslu til varnarmála - nýjar og stærri ógnir í alþjóðamálum einfaldlega kölluðu á það. Útgjöld Frakklands, Bretlands, Þýskalands og Ítalíu nema samtals um 75% af heildarútgjöldum aðildarríkja Evrópusambandsins til varnarmála, en Sarkozy segir að á þessu yrði að verða breyting. "Við getum ekki haldið áfram að láta aðeins fjögur ríki greiða fyrir öryggi allra hinna."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.