Verslunarmannafélag Reykjavíkur (VR) sleit kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins seint í gærkvöldi, en Vísir greindi frá þessu nú í morgun.

Ummæli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á fundi Viðskiptaráðs virðast hafa gert útslagið, en samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 lögðust ummælin afar illa í samninganefnd VR.

Á fundinum lýsti Bjarni yfir stuðningi við vaxtaákvörðun Seðlabankans og bætti við að vinnumarkaðurinn væri „raunverulega vandamálið“ vegna lítils samhljóms í kröfugerð verkalýðsfélaga.

Nú hefur VR sent frá sér yfirlýsingu um viðræðuslitin. Þar segir að forsendur fyrir áframhaldandi kjaraðviðræðum hafi verið brostnar vegna vaxtahækkunar Seðlabankans í vikunni.

Þá segir í yfirlýsingunni að tilboð SA um launahækkanir hafi „engan veginn“ staðið undir hækkunum verðlags og vaxta að undanförnu.

Yfirlýsing VR:

VR lýsti í gærkvöldi, fimmtudaginn 24. nóvember 2022, yfir árangursleysi í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Stéttarfélögin vísuðu kjaraviðræðum við SA til ríkissáttasemjara þann 14. nóvember sl. Viðræður síðan þá hafa snúist um gerð kjarasamnings til skamms tíma með áherslu á launaliðinn og það markmið að ná niður verðbólgu og lækka vexti.

Viðræður hafa þokast í rétta átt síðustu daga en nú er ljóst að forsendur fyrir áframhaldandi samtali eru brostnar. Ákvörðun Seðlabanka Íslands um að hækka stýrivexti í 6%, setti viðræður í uppnám og tilboð SA um launahækkanir hingað til standa engan veginn undir hækkunum verðlags og vaxta sem dunið hafa á launafólki í landinu. Frekari hækkanir eru nú fyrirsjáanlegar.

Viðræðunefnd VR gat ekki skynjað nokkurn vilja hjá samninganefnd SA um að hækka sitt tilboð frá því sem boðið var þegar deilunni var vísað til Ríkissáttasemjara og því enginn sjáanlegur tilgangur í því að halda viðræðum áfram að óbreyttu.

Yfirlýsing um árangursleysi viðræðna felur í sér að VR mun nú kynna ákvörðunina fyrir félagsfólki og meta næstu skref. Samkvæmt lögum ber ríkissáttasemjara að gera tilraun til að ná sáttum ef annar aðili óskar þess eða sáttasemjari telur það heppilegt. Ríkissáttasemjara ber þó ætíð að leita sátta innan 14 sólarhringa frá síðustu samningatilraunum.