Greiningardeild Arion banka birtir áhugaverðar mynd í markaðspunktum sínum í dag sem sýna hvernig spár Seðlabankans hafa rímað við raunveruleikann að undanförnu. Í myndinni sem sjá má með fréttinni er spá Seðlabankans teiknuð upp vinstra megin við punktalínuna, en spá bankans um þróun verðbólgunnar í framhaldinu hægra megin við hana. Samkvæmt Greiningardeildinni virðist sem ákveðin Pollýönnu-áhrif vera samofin líkaninu, þar sem það spáir því iðulega að verðbólgan færist hratt niður og verði komin nálægt verðbólgumarkmiðinu innan 7-8 fjórðunga.

„Þetta væri fagnaðarefni frekar en hitt, ef hægt væri að vænta þess að spárnar gengju eftir. Hins vegar virðist Seðlabankinn hafa vanspáð verðbólgu nánast kerfisbundið á árunum sem hér eru til skoðunar, og því meira sem spáð er lengra fram í tímann, eins og sjá má á myndinni,“ segir í punktum greiningardeildarinnar.

Eins og greiningardeildin bendir á er þetta ekki í fyrsta skipti sem svipuð mynd er teiknuð upp því í grein í Tímariti um viðskipti og efnahagsmál árið 2008 eftir þá Friðrik Má Baldursson og Axel Hall er svipuð mynd birt.

Þeir Friðrik og Axel töldu muninn á spáðri og raunverulegri verðbólgu meðal annars sýna að líkan Seðlabankans gerir ráð fyrir að Seðlabankinn hafi meiri trúverðugleika en raunin er. Því var gripin á lofti sú samlíking að verðbólgumarkmiðið væri í raun eins og hilling í eyðimörkinni, sem virtist ferðalangnum stöðugt innan seilingar, án þess að hann gæti þó nokkurn tíman náð henni. Þegar Seðlabankinn á svo að hafa samkvæmt spánni náð verðbólgu niður, hefur hún hlaupið frá honum og eltingarleikurinn hefst á ný.