Gengi krónu gagnvart Bandaríkjadollar hefur ekki verið sterkara í rúm tvö ár. Undir lok þriðjudags fengust rúmar 114 krónur fyrir dollarann og hefur gengið gagnvart dollar því styrkst um 7% frá því um miðjan nóvember á síðasta ári. Þá hefur krónan einnig styrkst talsvert gagnvart evru á síðustu vikum, eða um fimm og hálft prósentustig frá og með lok október í fyrra. Erfitt er að segja til um hvað veldur auknu gjaldeyrisinnflæði síðustu vikur en greiningaraðilar hafa bent á að umfangsmikil gjaldeyrisútboð Seðlabankans, aukinn afgangur af þjónustujöfnuði og litlar erlendar afborganir fyrirtækja að undanförnu gætu skýrt innflæðið. Styrkingu gagnvart Bandaríkjadollar, um fram það sem merkja má gagnvart evrunni, má líklega rekja til veikingu dollara gagnvart evru á undanförnum mánuðum.

Umfangsmikil gjaldeyrisútboð að baki
Ýmsir þættir geta legið að baki styrkingu krónunnar að undanförnu en greiningaraðilar hafa bent á að mikið fjármagn hafi leitað til landsins vegna fjárfestingarleiðarinnar undanfarið. Greiningardeild Arion banka vakti athygli á því fyrir nokkru að í síðasta gjaldeyrisútboði ársins 2013 á vegum Seðlabankans hafi tilboðum að upphæð rúmlega 39 milljónir evra verið tekið sem var um tvöfalt hærri upphæð en tekið var í útboðunum tveimur þar á undan. Hafði þátttaka ekki verið jafn góð í útboðum Seðlabankans frá því í fyrsta útboðinu árið 2012. Þá hélt Seðlabankinn fyrsta útboð ársins 4. febrúar síðastliðinn en útboðið sló enn eitt metið, þar sem bankinn tók tilboðum fyrir tæplega 47 milljónir evra. Benti greiningardeild Íslandsbanka á að Seðlabankinn hefði selt sérstaklega mikið af verðtryggðum ríkisbréfum í útboðinu, en bankinn tók tilboðum í bréfin fyrir um rúmlega 22 milljónir evra, og hefur sú upphæð ekki verið hærri í um tvö ár.

Ljóst er að talsvert innstreymi gjaldeyris hefur átt sér stað vegna útboðanna enda er skilyrði fyrir þátttöku í fjárfestingarleið Seðlabankans að fjárfestarnir selji jafnmikið af evrum á innlendum markaði og þeir fá að kaupa á gengi Seðlabankans. Má því áætla að um jafngildi 28,3 milljarða króna hafi borist til landsins með tveimur síðustu útboðum Seðlabankans, þar af um 23,6 milljarðar í tengslum við fjárfestingarleiðina.Menn hafa þó velt vöngum yfir því hvaða áhrif fjárfestingarleiðin hefur á gjaldeyrismarkaðinn. Erfitt sé að meta þessi áhrif þar sem viðskiptin koma ekki alltaf fram í tölum fyrir innlenda gjaldeyrismarkaðinn.

Hefur Viðskiptablaðið til dæmis heimildir fyrir því að oft sé búið að stilla upp kaupendum gjaldeyrisins sem fer í gegnum fjárfestingarleiðina þegar sala á gjaldeyrinum fer fram. Þá kom fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans, síðastliðinn föstudag, að ekki mætti merkja miklar breytingar á stöðu innlendra gjaldeyrisreikninga síðustu mánuði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.