Unnið er að því innan Seðlabankans að svara því hvort og með hvaða hætti standi á því að Seðlabankinn hafi greitt málskostnað Más Guðmundssonar seðlabankastjóra gegn bankanum þegar laun hans voru lækkuð. Fullyrt var í Morgunblaðinu í dag að bankinn hafi greitt málskostnað hans. Málið snýr að því að Kjararáð lækkaði laun Más eins og annarra embættismanna árið 2009 og máttu þeir þá ekki hafa hærri laun en Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum er svara að vænta síðdegis í dag.

Már taldi  kjararáð ekki hafa verið heimilt að skerða launin eftir skipun hans í embætti og fór í mál. Hann tapaði í héraðsdómi og áfrýjaði málinu til Hæstaréttar. Í apríl í fyrra staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms og felldi málskostnað niður.

Fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins að hvorki Lára V. Júlíusdóttir, sem var formaður bankaráðs Seðlabankans frá 2009 til 2013, né Ásta H. Bragadóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs bankans, vildu tjá sig um málið. Ragnar Árnason prófessor, sem hefur setið í bankaráði frá árinu 2009, staðfesti að málið hafi aldrei verið borið undir bankaráðið.