Orri Vigfússon, formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna (NASF), skýrði frá því á fundi á Hótel KEA á Akureyri um helgina að hann væri að láta vinna skýrslu um reynslu Íslendinga af fiskeldi í sjó. Til fundarins var boðað vegna hugmynda um opið sjókvíaeldi með norskum laxi á Eyjafirði.

Orri segir að í skýrslunni, sem verið sé að vinna, sé sjónum beint að arðsemi greinarinnar annars vegar og skattgreiðslum til samfélagsins hins vegar. Hann segir að fyrstu niðurstöður bendi til þess að obbinn af þeim fiskeldisfyrirtækjum sem hafi verið í rekstri undanfarin hálfan áratug hafi ekki greitt neina skatta svo vitað sé.

Hvað arðsemina snertir benti Orri á að mörg fiskeldisfyrirtækjanna hefðu orðið gjaldþrota „með tilheyrandi tug milljarða skaða fyrir samfélagið. Rannsókn á skattgreiðslum undanfarinna ára virðist einnig benda til að þegar frá er talinn Samherji, sem rekur af myndarskap fiskeldi á landi, hefðu hin 48 fiskeldisfyrirtækin hér á landi ekki greitt neina skatta."

Ósanngjörn gagnrýni

Einar Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri Fjarðalax, segir ekki sanngjarnt að segja að fiskeldisfyrirtæki borgi enga skatta.

„Það er í sjálfu sér rétt að laxeldisfyrirtæki borga takmarkaðan tekjuskatt á meðan það er verið að byggja þau upp," segir Einar Örn. „Þessi grein, eins og margar aðrar, er gjarnan rekin með tapi fyrstu árin. Það er dýrt að byrja í fiskeldi og tekur ákveðin tíma að rækta upp fisk og koma á markað. Á þessum tíma er verið að gjaldfæra ýmsan kostnað sem nýtist síðar. Á meðan fyrirtækin eru að byrja og hafa engar tekjur þá geta þau náttúrlega ekki borgað skatt. Þetta á ekki bara við um fiskeldisfyrirtæki. Miðað við áframhaldandi góða rekstur styttist í að Fjarðalax greiði tekjuskatt, það liggur alveg ljóst fyrir."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .