Keppinautur Jeremy Corbyn um leiðtogasætið í breska Verkamannaflokknum, Owen Smith, sakar Corbyn um að ljúga til um að hafa ekki fundið sæti og því neyðst til að sitja á gólfinu í lestarferð.

Vill þjóðnýta lestarkerfið

Leiðtoginn birti myndband af sér sitjandi á gólfinu í einni af lestum Virgin, og sagði hana hafa verið smekkfulla, sem sýndi þörfina á þjóðnýtingu lestarkerfisins.

Fyrirtækið sýndi í kjölfarið upptökur úr öryggismyndavélum sem sýndu að Corbyn hefði fundið sæti, og í raun gengið framhjá mörgum tómum sætum.

Hafði augljóslega sæti

„Sönnunin er þarna á myndbandinu, augljóslega hafði hann sæti,“ sagði Smith. „Hann vildi bara setjast á gólfið til að geta talað um troðfullar lestir.“

Samt sem áður segir Owen Smith að réttlætanlegt sé að þjóðnýta lestarkerfi Bretlands, en þegar hann var spurður út í það hvort hann tryði sögu Corbyns svaraði hann. „Ég er ekki viss um hver sé saga Corbyns, því það virðist vera sem útgáfa hans á atburðunum hafi breyst nokkrum sinnum í gær,“ sagði Smith.

„En það er ljóst frá myndbandinu sem ég hef séð að hann var með sæti í lestinni, það voru sæti á lausu og hann valdi að sitja á gólfinu til að geta tekið upp myndband.“

Richard Branson sakaður

Kosningastjóri Corbyn, Sam Tarry, viðurkennir að leiðtoginn hafi fundið sæti eftir að hafa setið á gólfinu í 45 mínútur.

Í framhaldinu sakaði hann forstjóra Virgin, Richard Branson, um að hafa hagnast á niðurgreiðslum breskra skattgreiðenda, og sagði hann vera í skattalegri útlegð.